GPS-tilraunum haldið áfram

Á sunnudaginn kom ný tilraunaútgáfa af Mobilespeak (farsímatali) með endurbættu aðgengi að OVI-kortunum fyrir Nokia-farsímana. Nú les forritið nöfn gatna sem farið er um og gönguleiðsögnin verkar afar vel.

Gpnguleiðir í nágrenni mínu eru ekki vel skráðar og ruglast því síminn talsvert. Ég á eftir að þaulreyna kortin á göngustígunum meðfram sjónum og kanna hvernig þau verka þar.

Víða í Evrópu hafa menn í dag og í gær gert tilraunir með þennan búnað og farið með strætisvögnum út um hvippinn og hvappinn. Þeir geta auðveldlega fylgst með því hvar þeir eru og er þetta ótrúleg frelsisviðbót blindu og sjónskertu fólki. Þeim sem hafa notað GPS-tæki árum saman þykja þetta sjálfsagt litlar fréttir, en þeim, sem hafa verið einangraðir vegna blindu sinnar finnast þetta miklar fréttir og geta nú horft fram á bjartari tíma. Umferliskennarar gera sér nú grein fyrir því að taka verður mið af þessari nýju tækni þegar blindu og sjónskertu fólki er kennt á umhverfi sitt. Nú þarf Reykjavíkurborg að ganga í lið með blindu og sjónskertu fólki og lagfæra ýmsar skelfingarvitleysur sem framdar hafa verið á gangstéttum og gangbrautum borgarinnar sem hafa orðið til þess að Reykjavík er víða stórhættuleg öðrum en akandi fvegfarendum og fuglinum fljúgandi.

Það er gleðilegt til þess að hugsa að fyrirtæki eins og Nokia skuli leggja metnað sinn í að vinna með framleiðendum hugbúnaðar sem er aðgengilegur í farsímum. Auðvitað er hér um markaðsmál að ræða, en samt læðist að mér sá grunur að einhver hugsun um almannaheill sé í farteskinu.

Þjónið alþýðunni, sagði Mao formaður.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband