Hvert útvarpslistaverkið öðru betra

Um þessar mundir er hvert listaverkið öðru betra á dagskrá ríkisfjölmiðlanna.

Í dag verður útvarpað seinni þremur leikritum Hrafnhildar Hagalín Guðmundsdóttur um einfarana. Leikritin eru stutt, gæðin misjöfn, en öll eru þau góð og sum á meðal þess besta sem ritað hefur verið fyrir útvarp. Hlustendur geta notið þeirra á vef Ríkisútvarpsins í nokkurn tíma eftir að þeim hefur verið útvarpað.

Þá verður á dagskrá sjónvarpsins í kvöld heimildamyndin Álfahöllin, sem Jón Karl Helgason gerði í tilefni 60 ára afmælis Þjóðleikhússins. Íslandsklukkan í leikstjórn Benedikts Erlingssonar er meginþráðurinn sem myndin er ofin um og var einróma álit áheyrenda, sem sáu frumsýningu hennar í Þjóðleikhúsinu í gær, að vel hefði til tekist um gerð myndarinnar. Það hríslaðist um suma sælukennd þegar gamlar ljósmyndir eða kvikmyndir birtust. Um undirritaðan fór skjálfti þegar hann heyrði brot úr lokaþætti Þrymskviðu sem sýnd var árið 1974 og þyrfti að taka á ný til sýningar.

Áberandi var hvað hljóðsetningin var góð og aldrei komu högg mili atriða eins og svo títt er um kvikmyndir, enda er Jón Karl gjörkunnugur útvarpi sem dagskrárgerðarmaður. Jón Karl Helgason fékk í fyrsta sinn birt eftir sig efni í Ríkisútvarpinu árið 1973, þegar hann var 6 vetra. Hann sendi okkur vísu í eyjapistil og minnir mig að fyrstu tvær hendingarnar hafi verið þannig:

Nú er gos í Heimaey, gufan er þar yfir.

Þá er og rétt að vekja athygli á Víðsjárþættinum um Matthías Jochumsson sem frumfluttur var á föstudaginn var. Þátturinn var að flestu leyti listavel gerður. Það spillti þó nokkru að tólist var látin hljóma undir frásögnum og kvæði. Þá var alls ekki nægilega vel vandað til kvæðalestrarins og til að mynda var lestur kvæðisins um móður skáldsins afleitur.

Að lokum eru menn hvattir til að hlýða á tónleika með sönglögum eftir Árna Thorsteinsson, en þeir voru ritdæmdir á þessum síðum fyrir skömmu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband