Baráttan um frelsi eða helsi

Á Rás tvö var athyglisvert viðtal í dag við Ólaf Sigurvinsson, stofnanda íslensk-svissneska tölvufyrirtækisins Datacell. Lýsti hann þeim þrýstingi og hótunum sem fyrirtæki hans er beitt til þess að úthýsa Wikileaks-síðunni. Vakti hann athygli á þeirri staðreynd að gögnunum, sem Wikilinks hefur birt, hefur verið komið fyrir hér og þar í veröldinni og því þurfi að ráðast að fleiri fyrirtækjum en Datacell.

Fyrir hlustendum laukst upp sú óþægilega staðreynd ao ýmis stórfyrirtæki, sem telja hagsmunum sínum ógnað, væntanlega vegna ógnana stjórnvalda, telja sig hafa aðstöðu til þess að kúga viðskiptavini sína til hlýðni og bandarísk yfirvöld ráða miklu um stöðu þessara fyrirtækja. Á Ólafi mátti þó skilja að hann hygðist ekki láta undan þrýsgingnum, enda gæti kúgunin snúist gegn stórfyrirtækjunum og svipt þau viðskiptum.

Um það leyti sem Stefán Jónsson, fyrrum fréttamaður og þingmaður, faðir Kára Stefánssonar, hóf að rita sína síðustu bók, "Að breyta fjalli", átti ég við hann eitthvert erindi. Eins og gerðist og gekk fórum við um víðan völl og sagði Stefán mér að nú heði sér verið fengin tölva til afnota. "Þetta er nú meira dýrðartækið," sagðihann. "Ef eitthvað verður til þess að hrinda ofríki auðvaldsins og bandarískra heimsvaldasinna (hann talaði sem sannur kommúnisti) þá verður það þessi tækni, þegar alþýðan fær beislað hana."

Skyldu þessi orð Stefáns vera í þann mund að rætast um þessar mundir? Hugsanlega á eftir að hrikta í innviðum ýmissa samfélaga vegna tölvutækninnar og þess að hún getur rofið svo gríðarlega einangrun um leið og hún getur einangrað þá sem ánetjast henni. Þá skiptir miklu hvernig tæknin verður nýtt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband