Jóhannesarpassían og hvissið í Hallgrímskirkju

Í gær, föstudaginn 1. apríl, fluttu Mótettukór Hallgrímskirkju, Alþjóðlega barokksveitin í Den Haag, sem er barokkhljómsveit með upprunalegum hljóðfærum og íslenskir einsöngvarar stórvirki Bachs, Jóhannesarpassíuna. Ungur tenórsöngvari, Benedikt Kristjánsson, fór með hlutverk guðspjallamannsins í fyrsta sinn. Aðrir einsöngvarar voru Þóra Einarsdóttir sópran, Sigríður Ósk Kristjánsdóttir alt, Ágúst Ólafsson bassi/Pílatus og Andri Björn Róbertsson bassi/Jesús. Þessum glæsilega flutningi stýrði Hörður Áskelsson af sinni alkunnu snilld.

Þótt Jóhannesarpassían veiti ef til vill ekki stjórnandanum tækifæri til fjölbreytilegrar túlkunar umfram það sem tíðkast hefur, var samt ljóst að áherslur kórs, söngvara og hljóðfæraleikara fóru talsvert eftir textanum hverju sinni og var því flutningurinn einlægur og lifandi, en ekki vélrænn, eins og stundum hefur borið við, þegar verk Bachs eru flutt. Hverju sem menn trúa um krossfestingu Jesú og það sem á eftir fór, hrífur einlægni Bachs áhorfandann og hann verður snortinn af sögunni sem sögð er.

Hallgrímskirkja hentar að mörgu leyti vel fyrir flutning kórverka þar sem mikið er um hæga kafla, en þegar hraðir kaflar eru leiknir vill ýmislegt fara í graut. Við hjónin sátum á 7. bekk í 4. og 5. sæti hægra megin og var hljómburðurinn þar viðunandi. Eitt truflaði þó talsvert. Þegar tóneyrað hafði aðlagast að barokk-stillingunni, fór að heyrast undarlegt hviss sem virtist berast aftan frá til hægri. Eftir nokkra ígrundun var augljóst hvað var á seyði. Þegar s eða h komu fyrir í textanum hjá kórnum endurköstuðust þessi hljóð frá gafli kirkjunnar u.þ.b hálfri sekúndu síðar. Sá ég eftir að hafa ekki tekið með mér vasahljóðrita til þess að fanga þetta fyrirbæri.

Mótettukór Hallgrímskirkju er á heimsmælikvarða og ekki síður einsöngvararnir og hljómsveitin. Flutningur sá, er kirkjugestir hlýddu í gærkvöld, getur vart orðið betri og er þar hlutur stjórnandans ekki sístur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband