Góður drengur kvaddur

Í dag verður borinn til grafar Arnór Pétursson, margreyndur og ötull baráttumaður um málefni fatlaðra. Örlögin haga því svo að ég kemst ekki að jarðarför hans og tími vannst ekki til að senda inn minningargrein um hann. Því verða nokkur minningarorð birt á þessum stað.

Þegar hvörf verða í lífi manna bregðast þeir við með ýmsum hætti. Sumir breyta um stefnu, aðrir leggja árar í bát og til eru þeir sem halda óbreyttri stefnu. Sú leið endar einatt með skipbroti. Arnór vissi sem sjómaður að hvort tveggja þurfti að gera - breyta um stefnu og halda á önnur mið.

Arnór einhenti sér í baráttu fatlaðra undir eins að endurhæfingu lokinni. Hann var einn þeirra sem stofnuðu Íþróttasamband fatlaðra og formaður Sjálfsbjargar, landsambands fatlaðra, var hann um skeið. Hann sat í aðalstjórn Öryrkjabandalags Íslands um árabil og var þar ötull liðsmaður.

Arnór kom víðar við ef málefni fatlaðra voru á dagskrá. Þegar reynt var að koma þessum málefnum á framfæri á vettvangi stjórnmálaflokka eða annarra samtaka var hann ódeigur liðsmaður. Sem starfsmaður Tryggingastofnunar ríkisins reyndist hann fjölmörgu fólki vel og var óspar á góð ráð. Hann hvatti fólk iðulega til þess að leita réttar síns og aðstoðaði það í hvívetna.

Með Arnóri Péturssyni er genginn góður drengur á vit hins ókunna. Við, sem eftir sitjum á þessari jarðarkringlu, söknum góðs vinar og þökkum allt hans óeigingjarna starf í þágu þess málstaðar sem við helguðum okkur. Fjölskyldu Arnórs sendi ég innilegar samúðarkveðjur.

Arnþór Helgason


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband