Brjálaði maðurinn með blindrastafinn

Föstudaginn 16. þessa mánaðar verður haldi ráðstefnan Hjómum til framtíðar. Verður þar rætt hvernig megi auka hljólreiðar í Reykjavík. Ekki veitir af, því að aðstaða gangandi og hjólandi vegfarenda hefur farið versnandi að undanförnu nema þar, sem lagbðir hafa verið sérstakir hjólreiðastígar.

 

Árangursrík endurhæfing

 

Árið 1978 var ég svo heppinn að komast í endurhæfingu í borginni Torquay í Devonskíri á Bretlandi. Lærði ég þar m.a fyrir tilstilli Elínborgar Lárusdóttur, blindraráðgjafa. að komast leiðar minnar með því að nota hvíta stafinn, eitt helsta hjálpartæki blindra. Þegar ég kom heim hófst ég handa við að læra ýmsar leiðir og reyndist móðir mín, Guðrún Stefánsdóttir, mér einstaklega velí þeirri viðleitni. Einnig reyndist Emil Bóasson ásamt öðrum mér mikil hjálparhella.

 

Á næstu árum fór ég víða um borgina á eigin spýtur og lenti í margvíslegum ævintýrum. Naut ég þess að ögra sjálfum mér og umhverfinu og takast á við þann vanda sem fylgir því að fara gangandi um borgina á eigin spýtur og án annarrar aðstoðar en þeirrar, sem reyndist nauðsynleg.

 

Versnandi aðstaða

 

Um nokkurra ára skeið dró úr gönguferðum mínum, enda voru þá annir miklar og aðstæður breyttar. Eftir a ég missti fasta atvinnu í ársbyrjun 2006 hófust gönguferðirnar á ný. Þá komst ég að því að aðgengi blindra og sjónskertra að Reykjavíkurborg hefur stórversnað og samtök fatlaðra virðast hafa sofnað á verðinum nema þeirra, sem ferðast um í hjólastól. Þeir hafa vakað á ferðunum og stundum troðið á rétti annarra. Verða hér rakin nokkur dæmi um hættur, sem hafa verið búnar til í umferðinni.

 

1.    Svokallaðar zebrabrautir eru nær horfnar úr borginni. Gangandi og hjólandi vegfarendum er nú iðulega beint yfir götur á gangbrautum sem eru á gatnamótum. Því fylgir einatt stórhætta og sums staðar eiga gangandi vegfarendur þar engan rétt.

2.    Gatnamót eru nú með meiri sveigju en áður og er oft erfitt sjónskertu eða blindu fólki að taka rétta stefnu yfir gangbrautir.

3.    Sums staðar á gatnamótum eru svo kölluð beygjuljós. Þegar umferð hefur stöðvast á aðalbraut virðist þeim, sem ætla að beygja inn í hliðargötur, gefið veiðileyfi á gangandi vegfarendur í dálitla stund. Skapar þetta stórhættu og er í raun banatilræði við þá sem eru sjónskertir eða blindir.

4.    Víða hefur gangbrautum verið breytt þannig, þar sem götur eru í breiðara lagi, að gangandi eða hjólandi vegfarendur geta ekki farið beint af augum yfir göturnar. Sveigja verður til hliðar á umferðareyjunni til þess að komast leiðar sinnar. Er þetta erfitt hjólandi vegfarendum )t.d. þeim sem eru á tveggja manna hjóli) og gerir blindu fólki nær útilokað að fara yfir á réttum stöðum. Þessar brautir eru í raun sem ófær stórfljót.

5.    Víða í borginni finnst ekki lengur neinn munur á götum og gangstéttum og lenda því blindir vegfarendur iðulega úti á götu án þess að átta sig á því. Laugavegurinn er glöggt dæmi um slíkt.

6.    Borgaryfirvöld hafa markað örstutt svæði nærri umferðarljósum og víðar með rauðum steinum. Áferð þeirra er svo svipuð nánasta umhverfi að blindur maður með hvítan staf tekur ekki eftir neinu.

7.    Í þeim mannvirkjum, sem tekin hafa verið í notkun að undanförnu, er ekkert tillit tekið til blindra eða sjónskertra. Arkitektar virðast enga hugmynd hafa um merkingar, heppilega litasamsetningu, leiðarlínur o.s.frv. Háskólatorgið, Háskólinn í Reykjavík og Höfðatorg eru glöggt dæmi um slíkt. Þá er Ingólfstorg beinlínis stórhættuleg slysagildra.

8.    Engar merkingar eru í námunda við biðstaði strætisvagna sem auðvelda blindu fólki að finna þær.

9.    Víða eru margs konar stólpar og hindranir sem valda fólki meiðslum og margs kyns óþægindum.

10.  Ekkert, bókstaflega ekkert, var gert til þess að auðvelda blindu eða sjónskertu fólki umferð um Hlemm og aðrar samgöngumiðstöðvar. Þegar breytingar voru hannaðar var látið sem þessi hópur væri ekki til.

 

Þótt félagsþjónusta í Reykjavík sé e.t.v. skárri en víðast hvar verður því ekki neitað að borgin er þannig skipulögð að unnið er markvisst að einangrun þessa hóps. Tökum sem dæmi hús Blindrafélagsins við Hamrahlíð 17. Þangað er að vísu hægt að komast með einum strætisvagni. Sá, sem hyggst fara gangandi þaðan á eigin spýtur í norður, er hins vegar ofurseldur Miklubrautinni vegna breytinga, sem gerðar voru á gönguleiðinn á mótum Miklubrautar og Stakkahlíðar. Nú er ekki lengur hægt að fara beint yfir Miklubrautina heldur verður að sveigja til hliðar til þess að halda áfram. Þannig var blint fólk útilokað frá því að nýta þessa gönguleið og þjónustumiðstöð blindra um leið einangruð.

 

Ástandið er litlu skárra í sumum nágrannasveitarfélögum Reykjavíkurborgar. Nú er nauðsynlegt að menn taki saman höndum og vinni markvisst að breytingum á þessu sviði og búi til borg og kaupstaði, sem ætluð sé öllum en ekki sumum. Myndum nú þrýstihópa þeirra sem eiga undir högg að sækja í umferðinni. Oft var þörf, en nú er nauðsyn.

  

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband