Dudamel og Gautaborgarsinfónían

 

Í gær, 18. september, efndi Sinfóníuhljómsveit Gautaborgar til tónleika í Hörpu undir stjórn Gustavo Dudamels. Ég hlakkaði til tónleikanna. Sinfóníuhljómsveit Gautaborgar er þekkt af góðum hljóðritum og á ofanverðum 9. áratugnum, þegar geisladiskar ruddu sér sem óðast til rúms, báru hljóðritanir hennar af.

Tónleikarnir hófust með verkinu Tiger Touch (snerting tigursins) eftir Karin Rehnqvist, en verkið var frumflutt í Gautaborg 14. þessa mánaðar. Um er að ræða margþætt samspil hljómsveitar og slagverk og í efnisskrá var rætt um að tónsmíðin endaði með háu öskri tigursins. Að mínum dómi hefði stjórnandinn mátt leggja meira í endinn og öskrið getað notið sín betur. Fyrir vikið lognaðist tigurinn út af og viðbrögð áheyrenda dræm.

Þá var á efnisskránni Klarinettukonsert eftir Mozart í flutningi

einleikarans Martin Fröst sem er Íslendingum að góðu kunnur og hefur m.a. komið fram sem einleikari ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands. Athyglisvert var að hlýða á flutninginn fyrir margra hluta sakir. Dreifing hljómsins var mjög jöfn. Skipti þar miklu að sellóin voru höfð á milli fyrstu og annarrar fiðlu, að því er mér var tjáð, og gerbreytti það dreifingu leiksins, einkum þegar Mozart bregður fyrir sig pólífónískum tilbrigðum. Tónlistareyrað var hins vegar orðið svo vant Háskólabíói að því þótti eftirhljómurinn jafnvel of mikill.

Martin Fröst lék konsertinn af mikilli innlifun og á stundum þótti mér tónninn í það lægsta. Miklar andstæður í flutningi geta orkað tvímælis, einkum þegar fremur látlaus verk eins og þessi klarínettukonsert, eiga í hlut.

Eftir hlé var 6. sinfónía Tchaikovskys á efnisskránni., magnþrungið verk í stórkostlegum flutningi hljómsveitar og stjórnanda. Að verkinu loknu hélt stjórnandinn áheyrendum í langri og magnþrunginni þögn. Síðan brustu fagnaðarlætin á sem enduðu þegar hljómsveitin lék eitt aukalag.

Þessir tónleikar verða fyrir margra hluta sakir eftirminnilegir. Stórgóð hljómsveit var á ferð og ánægjulegt að bera hana saman við Sinfóníuhljómsveit Íslands. Nú vitum við Íslendingar hvað við eigum og hvers virði hún er.

Þá brást Eldborg ekki vonum manna. Hún fór vel með allt tónsviðið og áberandi var hvað hljómurinn í salnum var þéttur og jafn.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband