Laugardaginn 7. apríl hófst 3. tónleikaröð starfsársins hjá Þjóðarsinfóníuhljómsveitinni í Beijing. Að þessu sinni verða haldnir 11 tónleikar, þar sem fram koma ýmsar af þekktustu sinfóníuhljómsveitum Kínverska alþýðulýðveldisins. Okkur hjónum var boðið á tónleikanna og nutum þeirra í ríkum mæli. Ég hef ekki verið á sinfóníuhljómleikum í Beijing í 26 ár og var ánægjulegt að verða vitni að hinni miklu og öru þróun sem hefur orðið á sviði sígildrar, vestrænnar tónlistar í Kína.
Í ávarpi, sem embættismaður kínverska menningarmálaráðuneytisins flutti við upphaf tónleikanna, kom fram að stjórnvöld hefðu ákveðið að niðurgreiða aðgöngumiða, sem þættu orðnir of dýrir til þess að almenningur fengi notið sinfónískrar tónlistar. Eftir því sem okkur virtist, kostuðu miðarnir á þessa tónleika álíka mikið og miðar á tónleika Sinfóníuhljómsveitar Íslands í Hörpu. Hljómsveitarstjóri var Lin Tao, sem hefur getið sér gott orð sem hljómsveitarstjóri víða í Evrópu.
Kínversk og vestræn tónlist
Á tónleikunum voru leiknir þættir úr evrópskum og kínverskum verkum. Tónleikarnir hófust með forleiknum að Ruslan og Ljudmílu eftir glinka. Þar næst var Dans Yaomanna, kínverskt verk frá miðjum 6. áratugnum, þá þrír þættir úr ballettsvítunni Rauðu kvennaherdeildinni og fyrsti þáttur píanókonsertsins, Stofnendurnir, en Guan Xia lauk við að semja hann á síðasta ári. Einleikari var Wu Makino.
Eftir hlé voru þættir úr Svanavatninu og Carmen á dagskrá auk fyrsta þáttar 9. sinfóníu Dvoraks úr nýja heiminum.
Þjóðarleikhúsið mikla
Tónleikarnir voru haldnir í Þjóðarleikhúsinu mikla, sem stendur nærri Torgi hins himneska friðar í Beijing. Bygging þess hófst árið 2001og var það tekið í notkun árið 2007. Auk tónleikasalar, sem rúmar um 2.000 áheyrendur, er sérstakur salur til óperuflutnings auk annarra smærri sala fyrir ýmsar tegundir tónlistar. Húsið, sem gengur undir nafninu Eggið, mótast mjög af egglaga formum. Þessi mikla listamiðstöð er mikilfenglegt listaverk og svo stór í snium, að Harpa verður hálfgerð smásmíði. Byggingin er sögð hafa kostað 50 milljarða og 400 milljónir íslenskra króna á gengi því sem Seðlabankinn gaf upp þriðjudaginn 10. apríl 2012.
Nokkurrar tilhlökkunar gætti hjá okkur hjónum að bera saman hljómburðinn í Egginu og Eldborgarsal Hörpu. Hljómurinn virtist nokkuð jafn og dreifingin góð. Þar sem við sátum á næstfremsta bekk á öðrum svölum þótti mér djúpir tónar bassans ekki skila sér nægilega vel. Kann þar að hafa valdið hljóðstilling salarins.
Um kínversku verkin
Flestir lesendur þessa pistils þekkja þau vestrænu verk, sem nefnd hafa verið hér að framan. Dans Yaomanna var upphaflega saminn fyrir hljómsveit með kínverskum hljóðfærum. Verkið er rómantískt og á að endurspegla þjóðleg einkenni Yao-þjóðflokksins. Hefur það notið mikilla vinsælda. Dansinn var saminn árið 1952 og voru höfundarnir tveir: Liu Tieshan og Mao Yuan. Hljómsveitin lék þetta verk ágætlega og naut viðkvæmni þess sín auk fjörugra kafla, þar sem slagverkið naut sín.
Ég hafði hlakkað mikið til að heyra þættina úr Rauðu kvennaherdeildinni, en það verk hefur verið í miklu uppáhaldi hjá mér frá því að ballettinn var gefinn út á hljómplötum árið 1972. Við hlið mér sat kínversk vinkona okkar hjóna, Lu Yanxia, sem var barnastjarna í Jinan og dansaði þá hlutverk aðalpersónunnar, wu Qinghua. Nutum við verksins í ríkum mæli. Elín þekkir þetta verk einnig mætavel, enda eru kaflar úr því fluttir hér á heimilinu við og við. Hljómsveitin lék forleikinn, Dans rauðu herkvennanna og hluta annars þáttar.
Eins og mörg verk, sem samin voru í menningarbyltingunni, var tónlistin við Rauðu kvennaherdeildina samvinnuverkefni þeirra Du Mingxin, Wu Zuqiang, Wang Yanqiao, Shi Wanchun og Dai Hongcheng.
Leikur hljómsveitarinnar var yfirleitt áheyrilegur. Þó var áberandi misræmi milli strengjasveitar og blásara. Einkum virtust básúnurnar óhamdar.
Í fyrsta þætti píanókonsertsins Stofnendanna, sem var síðastur á dagskrá fyrir hlé, drukknaði hljómur slaghörpunnar í ofurþunga hljómsveitarinnar. Verkið virðist, eftir því sem dæma má af fyrsta þætti, líkast amerískri kvikmyndatónlist úr bandarískri ástarkvikmynd. Meginstefið er knappt og endar í svo tilfinningalegum hljómi, að hver sá, sem er viðkvæmur í lund, hlýtur að tárast. Vart verður þetta verk talið merkasta framlag Kínverja til píanóbókmenntanna. Svo að öllu sé þó haldið til skila er það lagrænt og fellur sjálfsagt ýmsum, sem eru að byrja að feta sig um vegi vestrænnar tónlistar, vel í geð.
Íslendingar, sem eiga leið um Beijing, eru eindregið hvattir til að veita athygli því mikla framboði tónlistar af ýmsu tagi sem er á boðstólnum í borginni. Óhætt er að fullyrða að Beijing verður innan skamms ein þeirra stórborga, sem skartar miklu úrvali alls kyns tónlistar við flestra hæfi.
Meginflokkur: Tónlist | Aukaflokkar: Kínversk málefni og menning, Menning og listir | 10.4.2012 | 16:51 | Facebook
Tónlistarspilari
Tenglar
Fonix.blog.is
Helena Björnsdóttir þjálfuð til þess að nýta sér blindrahund
Bloggvinir
- alla
- axelthor
- arnibirgisson
- ormurormur
- astafeb
- bjarnihardar
- gattin
- dora61
- saxi
- jaherna
- jovinsson
- fjarki
- gislisigurdur
- gudni-is
- gelin
- gummigisla
- heidistrand
- helgigunnars
- hildurhelgas
- himmalingur
- hoskibui
- isleifur
- jakobk
- fun
- jonhalldor
- jon-o-vilhjalmsson
- nonniblogg
- juliusvalsson
- kje
- kristbjorggisla
- methusalem
- mortenl
- moguleikhusid
- skari60
- rafng
- ragnar73
- fullvalda
- duddi9
- siggisig
- saemi7
- vefritid
- thorirj
Jan. 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | |||
5 | 6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 |
12 | 13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 |
19 | 20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 |
26 | 27 | 28 | 29 | 30 | 31 |
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Evrópumál
- Ferðalög
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kínversk málefni og menning
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.1.): 0
- Sl. sólarhring: 3
- Sl. viku: 9
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 9
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.