Söngblæstri útvarpað úr Hörpu

 

Í dag var útvarpað hljóðriti frá tónleikum, sem haldnir voru í Hörpu á vordögum undir heitinu „Ég veit þú kemur". Var þar vitnað til hins ágæta lags Oddgeirs Kristjánssonar við texta Ása í Bæ.

Á tónleikunum fluttu þau Sigríður Thorlacius og Sigurður Guðmundsson, tveir af okkar fremstu dægurlagasöngvurum,  ýmsar söngperlur frá 6. og 7. áratugnum. Útsetningarnar voru eftir Hrafnkel Orra Egilsson, sem hefur getið sér gott orð fyrir útsetningar sínar á íslenskum dægurlögum, sem sinfóníuhljómsveit Íslands hefur flutt ásamt einsöngvurum við góðan orðstír.

 

Hrafnkell Orri Hitti ekki ævinlega í mark

 

Nú brá hins vegar svo við að Hrafnkatli brást nokkuð bogalistin í Oddgeirsútsetningunum. Svo virðist sem hann hafi ekki leitað í útgáfu sönglaga Oddgeirs, heldur tekið mið af útsetningum og breytingum, sem kunnur útsetjari gerði á síðustu öld. Þar með voru lögin að hluta til afskræmd eins og lagið „Heima", sem mörgum Eyjamönnum þykir vænt um.

Undirritaður ákvað að fara ekki á þessa tónleika í vor. Ástæðan var sú að hann hefur nokkrum sinnum hlýtt á tónleika í Eldborg þar sem farið hefur saman rafmögnuð tónlist og leikur órafmagnaðra hljóðfæra. Hefur áður verið fjallað um það á þessum síðum. Þar sem greinarhöfundur telur að mikið vanti á að hljóðstjórnendur Hörpu þekki hvernig eigi að vefa saman órafmagnaða tónlist og háspinnutónlist, ákvað hann að láta ekki ofbjóða dvínandi heyrn sinni heldur vænti hann þess að tónleikunum yrði útvarpað.

 

Blásið í hljóðnemann

 

auðvitað bar ekki á þessu í útsendingu ríkisútvarpsins, enda kunna hljóðmenn Ríkisútvarpsins vel sitt fag. Hitt var verra að Sigurður andaði um of í hljóðnemann svo að veruleg lýti voru að. Virðist augljóst að hann kunni ekki að beita hljóðnemanum og hafi hann of nærri sér.

Á Netinu er hægt að finna fjölda greina sem fjalla um notkun stefnuvirkra hljóðnema eins og þeirra, sem söngvarar og ræðumenn nota. Meðal annarra atriða er mönnum bent á að hafa hljóðnemann til hliðar við munninn og láta hann vísa að munnvikunum. Þannig er hægt að komast nærri hljóðnemanum en forðast um leið þennan blástur, sem lýtir svo mjög flutning margra söngvara og ræðumanna.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband