Afbragðs útvarpsleikrit

Ásdís Thoroddsen er snjöll. Hún hefur margsinnis sýnt það sem kvikmynda- og útvarpsleikstjóri. Mörgum er vafalítið í fersku minni leikrit hennar sem flutt var í útvarpi fyrir nokkrum vetrum og fjallaði um ævi Jóns lærða Guðmundssonar, einkum Spánverjavígin á Vestfjörðum árið 1612.

 

Sunnudaginn 2. desember og í dag flutti Útvarpsleikhúsið leikrit hennar, Ástand, sem fjallar um unga stúlku, Guðrúnu, sem varð hrifin af breskum hermanni í upphafi hernáms Breta hér á landi og afskipti yfirvalda af henni. Þessi átakanlega saga snertir strengi í hjörtum þeirra sem á hlýða. Hljóðvinnslan er afbragðs góð, en Einar Sigurðsson hélt þar um taumana væntanlega undir styrkri leikstjórn leikstjóra og höfundar leikverksins.

 

Auðheyrt er að Ásdís hefur nýtt sér reynslu sína af gerð kvikmynda í þessu verki. Skiptingar voru snöggar og sviptu hlustendum úr einni hljóðmynd í aðra. Samhengið var hins vegar svo mikið og vel tengt að alls ekki varð til skaða.

 

Hljóðmyndin var yfirleitt sannfærandi. Hljóðmyndin í upphafi var allvel sviðsett, þegar blaðasöludrengur heyrðist kalla. Þeir hefðu reyndar mátt vera fleiri. Þarna sannaðist að vísu hið fornkveðna, að tímarnir breytist og mennirnir með. Hljóðumhverfið var ekki nægilega sannfærandi. Þar er hvorki við leikstjorann né hljóðritara að sakast heldur hitt, að hverju tímabili fylgir ákveðinn hljóðheimur sem erfitt er að endurskapa. Sem dæmi má nefna að of oft virtust bifreiðar þjóta hjá á malbiki, en þó er eins og leikstjórinn hafi stundum munað eftir þessu og bætt þar úr. Einnig voru bifreiðatengundir meira sannfærandi í seinni þættinum en þeim fyrri.

 

Ástand er á meðal hins besta sem gert hefur verið í íslensku útvarpsleikhúsi á þessari öld. Aðstendum þess er óskað til hamingju með árangurinn og lesendur þessarar færslu eindregið hvattir til að fara inn á vef Ríkisútvarpsins að leita verkið uppi.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband