Íslensk þýðing á spænsku aðgengisforriti fyrir snjallsíma

Fjórtándi janúar árið 2014 verður talinn til tíðindadaga á meðal blindra og sjónskertra Íslendinga. Í dag kom forritið Mobile Accessibility fyrir Android farsíma út í Playstore hjá Google. Heldur gekk treglega að finna forritið, en með því að leita að orðinu skjálesari fannst það. Fólk getur fengið því úthlutað hjá Þekkingarmiðstöðinni.

Uppsetning forritsins gekk með ágætum og við fyrstu heyrn virðast flestir annmarkar hafa verið lagfærðir. Sú breyting hefur nú orðið á forritinu að hægt er að hafa MA opið sem skjálesara um leið og Talkback aðgengislausn símanna. Virðist þá vera hægt að lesa öll forrit símans sem eru aðgengileg.. Vakin skal athygli á því að séu báðir skjálesararnir notaðir samtímis og Mobile Accessibility sem valmynd, þarf iðulega aðþrísnerta skjáinn þegar skipanir eru notaðar.

Þá er hægt að nota Mobile Accessibility skjálesarann eingöngu og gefur hann þá kost á skipunum sem eru afar fljótvirkar. Sá böggull fylgir skammrifi að skjálesarinn les ekki nægilega vel sum forrit og lestrarforritið Ideal Group Reader, sem notað er fyrir EPUB-rafbækur, nýtist ekki. Moonreader, sem er svipað, hefur að vísu ekki verið reynt.

Þá virkar MA einnig sem valmynd í Talkback og eru þá skipanir Talkback virkar.

Mobile Accessibility er þægilegt fyrir byrjendur vegna þess að vaðgerðareitir (hnappar) eru dreifðir um svo stórt svæði á skjánum að lítil hætt er á að menn hitti fyrir tvo hnappa í einu. Þá er íslenska snertilyklaborðið, sem Baldur Snær Sigurðsson hannaði, afbragðsgott. Vilji menn fremur nota þráðlaust borð er hægt að aðlaga það forritinu.

Ástæða er til að óska Blindrafélaginu og Þekkingarmiðstöðinni til hamingju með þennan áfanga. Verður forvitnilegt að fylgjast með nýjum notendum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband