Sæmd - heilsteypt listaverk

Benedikt Gröndal Sveinbjarnarson hefur verið mér hugstæður síðan Lárus Pálsson las söguna af Heljarslóðarorrustu í útvarp árið 1965 eða 66 og af frásögnum föður míns úr Dægradvöl, sjálfsævisögu Benedikts. Um þessar mundir er Heljarslóðarorrusta í farsímanum og glugga ég ævinlega í hana þegar mig langar að skemmta mér.

Í haust las ég Dægradvöl, en Skólavefurinn hefur gefið hana út sem rafbók og síðan kom Sæmd Guðmundar Andra Thorssonar.

Í Dægradvöl gerir Benedikt upp líf sitt og horfist í augu við sjálfan sig, kosti sína og galla. Hann gerir m.a. stuttlega grein fyrir söguefni því sem Guðmundur Andri fjallar um í Sæmd. Benedikt virðist álíta sig hafa goldið föður síns, en Vilhjálmur Þ. Gíslason sagði okkur Þorvaldi Friðrikssyni eftir Steingrími Thorsteinssyni, að Sveinbjörn hefði ekki haft embættismannastéttina í Reykjavík með sér, þegar "pereatið" reið yfir. Því fór sem fór. Er það meðal annars rakið til samskipta tengdaföður hans við Jörund hundadagakonung. Um þetta fjallar Benedikt á sinn sérstæða hátt í Dægradvöl.

Guðmundur Andri hefur skapað ódauðlegt listaverk með Sæmd. Þótt ævinlega megi eitthvað að öllu finna er bókin í heild sinni forkunnar vel skrifuð, persónusköpunin heilsteypt og atburðarásin samfelld. Því er full ástæða til að óska Guðmundi Andra hjartanlega til hamingju með þær viðtökur sem bókin hefur fengið og þann heiður sem honum hefur verið sýndur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband