Hefðbundið ofbeldi minnihlutans - þolinmæði almennings á þrotum

Alþingi virðist komið í þrot. Starfshættir þess ganga ekki lengur og virðing þess og traust meðal almennings fara þverrandi.

Það hefur verið átakanlegt að fylgjast með umræðum á þinginu að undanförnu, en í gær virtist sem steininn tæki úr. Alþingismenn, einkum stjórnarandstaðan, virðast ekki henda reiður á því sem ræða skal, heldur munnhöggvast menn, deila um fundarstjórn forseta og brigsla hver öðrum um óheilindi og ósannindi. Stjórarandstaðan haga sér nú engu skár en síðasta stjórnarandstaða og þótti þá ýmsum nóg um.

Þegar Einar Kr. Guðfinnsson tók við embætti forseta Alþingis lýsti hann því að hann vildi bæta starfshætti þingsins. Fögnuðu margir þeirri yfirlýsingu og töldu að hann hefði jafnvel stuðning til þess. Nú er hann lentur í hringiðu ósamkomulags þar sem rök þrýtur og illskeytin hjaðningarvíg taka við.

Umræðuhefðin og þær aðferðir, sem nýttar eru á Alþingi til þess að ná niðurstöðu í málum, eru úr sér gengnar á þinginu eins og dæmin sanna og það lýðræði, sem þingið á að standa vörð um, er í raun líkast skrílræði. Ýmislegt er hægt að aðhafast til þess að lagfæra ástandið. Hér á landi hafa verið stundaðar athyglisverðar rannsóknir á stöðu lýðræðis og aðferðum sem hægt er að beita til þess að komast að niðurstöðu í málum. Einar Kr. Guðfinnsson hlýtur að beita sér fyrir því að efna til samræðna innan og utan þingsins um það hvernig bjarga megi því sem bjarga þarf, heiðri þingsins. Til þess þarf atbeina þeirra, sem stundað hafa rannsóknir og komist að niðurstöðu, sem gagnast má þinginu þannig að menn reyni ekki ætíð að neyta aflsmunar hvort sem þeir eru í stjórn eða stjórnarandstöðu. Þannig gæti Alþingi rétt úr kútnum og þingmenn farið að haga sér „eins og menn“.

 


mbl.is Þingfundi slitið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband