Ærandi tónverkir!

Samúel Jón Samúelsson og stórsveit hans eiga sér marga aðdáendur. Þar er fjöldi blásara, trumbuslagara auk manna sem leika á gítar og bassa.

Ég hef nokkrum sinnum heyrt sveitina leika á tónleikum af mikilli fimi og lipurð - jafnvel innlifun. Einn galli hefur verið á gjöf Njarðar - ærandi hávaði.

Hvers vegna í ósköpum þarf að magna upp blásturshljóðfærin og slagverkið svo að hljómurinn afskræmist? Við hjónakornin áttum leið í Hörpu í dag að sækja miða á tónleika Sinfóníuhljómsveitar Íslands og þar lék stórsveitin í anddyrinu. Allt ætlaði um koll að keyra og við forðuðum okkur áður en við ærðumst eða fengjum hljóðverk.

Árið 2011 var efnt til afmælishljómleika í Hörpu að heiðra minningu Oddgeirs Kristjánssonar. Þá fengu menn að heyra hvað húsið bar hljóm órafmagnaðrar lúðrasveitar vel.

Í vetur voru hljómleikar til minningar um Ása í bæ, einnig í hörpu. Í lok þeirra voru útsetningar fyrir hljómsveitarundirleik og lúðrasveit. Þá þótti ástæða til að magna allt saman upp og úr varð hálfgerður óskapnaður.

Í sjötugs afmæli Þóris Baldurssonar var enn hið sama upp á teningnum. Hann lék á Hammondorgelið sitt, ágætir trymblar börðu bumbur og Stórsveit Reykjavíkur lék með. Yfirleitt var tónlistin of hátt stillt og á köflum varð hljóðblöndunin alger óskapnaður.

Ætli Samúel Jón Samúelsson og fleiri geri sér ekki grein fyrir að með þessum hávaða er verið að eyðileggja tónlistarheyrn fólks, eða er hávaðinn hluti listarinnar? Spyr sá sem ekki veit, en úr þessu verður alls herjar tónverkur.



« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband