Er Framsóknarflokkurinn "þjóðfífl Íslendinga"?

Margt hefur verið rætt og ritað um auðlindafrumvarp Geirs og Jóns, en stjórnarskrárákvæðið hljóðar svo:

"Náttúruauðlindir Íslands skulu vera þjóðareign þó þannig að gætt sé réttinda einstaklinga og lögaðila samkvæmt 72. gr. Ber að nýta þær til hagsbóta þjóðinni, eftir því sem nánar er ákveðið í lögum. Ekki skal þetta þó vera því til fyrirstöðu, að einkaaðilum séu veittar heimildir til afnota eða hagnýtingar á þessum auðlindum samkvæmt lögum."

Ekki er þetta nú mjög stjórnarskrárlega orðað og sérgæslan auðsæ.

Jón Sigurðsson, formaður Framsóknarflokksins, hefur talað um að hér sé um að ræða afturkræfan rétt til nýtingar auðlindanna. Geir segir aftur á móti að þetta þýði óbreytt ástand. Ég þekki lögfræðinga vel að þeir geta átt það til að halda því fram að réttindin eða afnotin séu ekki afturkræf því að hvergi sé talað um óafturkræf réttindi. Það sem ekki standi í lögunum sé ekki hægt að framkvæma. Með slíkum röksemdum hefur embættismönnum ráðuneytanna iðulega tekist að skjóta stjórnvöldum undan ábyrgð ýmissa mála.

Nú hefur því verið haldið fram að með lögum um heimild til framsals fiskveiðikvóta hafi í raun myndast eignarréttur á þeim kvóta sem menn hafa annaðhvort fengið úthlutað eða keypt. Hér skal það dregið í efa enda er kveðið svo að orði í lögunum að þessi auðlind sé sameign þjóðarinnar. Sigurður Líndal og fleiri lögfræðingar hafa haldið því fram að ekkert sé til sem kallist þjóðareign eða sameign þjóðarinnar (vonandi rétt eftir haft). Nú eru slík fyrirbæri þó til. Lengi hafa verið í lögum hér á landi ákvæði um almenninga sem eru annaðhvort þjóðareign eða sameign ákveðinna héraða. Ég man ekki betur en Þingvellir hafi orðið almenningur sem landsmenn áttu allir. Munurinn er hins vegar sá að það hefur enginn fengið úthlutað Þingvöllum til einkanota. Á sama hátt má fullyrða að enn hafi ekki myndast lögverndaður réttur fyrir því að einhverjir einstaklingar eigi fiskinn í sjónum öðrum fremur. Það væru þá helst sjómennirnir, sem veiða fiskinn, sem ættu að hafa nýtingarrétt á honum og gætu leigt hann útgerðinni. Í þess stað hafa menn nú fengið heimild til þess að ráðstafa þessari meintu eign sinni þannig að flutt hefur verið stórfé úr sjávarútvegi í aðrar atvinnugreinar sem deila má um hvort skili hagnaði. Mikill hluti hefur einnig farið til einkaneyslu fárra. En ekkert er talað um afturkræfan rétt í lögunum og því líta menn á kvótann sem sína eign.

Íslendingar hafa gjarnan hneykslast á Rússum og rætt hvernig þeir hafi hremmt gömlu, sovésku fyrirtækin. Ástandið er ekki skárra hér. Hér var auðlindin afhent (ekki gefin) hópi manna sem höfðu öðlast ákveðinn rétt vegna veiðireynslu þriggja síðustu ára. Sá, sem hafði ekki veitt í eitt eða tvö ár áður en þriggja ára tímabilið gekk í garð, sem enginn vissi þá um, fékk ekkert þrátt fyrir að hann hefði gert út árum eða áratugum saman, samanber Jón Ármann Héðinsson sem fékk engan kvóta.

Í Morgunblaðinu í dag birtist skemmtileg og athyglisverð grein eftir Magnús Thoroddsen, hrl., þar sem hann vekur athygli á því hvað frumvarp stjórnarflokkaformannanna er illa samið, enda hefur sérnefnd Alþingis gefist upp á því. Ekki þætti mér ólíklegt þótt Sjálfstæðisflokkurinn hefði lagt sig í líma við að gera þetta ákvæði þannig úr garði að það breytti í raun engu og Jón Sigurðsson hefði fallið í þessa gryfju. En Magnús, sem er klókur lögmaður og fyrrum hæstaréttardómari, leggur til að ákvæðið verði þannig:

"Náttúruauðlindir Íslands, hvort heldur er í lofti, legi eða á láði, skulu vera þjóðareign. Þær ber að nýta til hagsbóta þjóðinni, eftir því, sem nánar er ákveðið í lögum. Heimilt er að veita einkaaðiljum afnota- eða hagnýtingarrétt á þessum auðlindum til ákveðins tíma gegn gjaldi, hvort tveggja ákveðið í lögum. Slík afnotaréttindi geta aldrei skapað eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðilja yfir náttúruauðlindinni."

Magnús kvartar undan því að frumvarp stjórnarflokkaformanna sé ekki sérstaklega vel orðað og varla telst þessi tillaga hans meitluð. En hún hefur þó þann ótvíræða kost að taka af allan vafa um nýtingarréttin sem er afturkræfur. Hví skyldi slíkt ákvæði ekki hafa mátt standa í frumvarpinu? Eru áhrif kvótakónganna svona sterk á Alþingi?

Ákvæðið verður víst ekki samþykkt á þessu þingi fremur en frumvarpið um táknmálið. Framsóknarflokkurinn er orðinn að athlægi eða hálfgert þjóðfífl Íslendinga, eins og Halldór K. Laxness komst að orði um þann Íslending sem ég hef einna mest dálæti á.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband