Kalt fótabað gegn blindu - gamalt húsráð?

Kastljósþáttur Ríkisútvarpsins sjónvarps í gærkvöld vakti mikla athygli fyrir ýmissa hluta sakir. Þar birtust ákveðnir þættir mannlegs eðlis sem annaðhvort er hægt að skýra sem dæmi um fádæma trúgirni sölumanna, ósvífni, loddaraskap, hjátrú eða hreinlega kukl.

Fátt af því sem sölumennirnir í kastljósi kvöldsins fjölluðu um, á nokkuð skylt við svokallaðar heildrænar lækningar, en það orð nota þeir í yfirlýsingu sem birt er á síðu Kastljóss.

Kuklarar eru allmargir hér á landi og virðast sumir þeirra ná ótrúlegum tökum á fólki. Sumum tekst að féfletta saklaust fólk, beina því frá læknum og einatt liggur við stórslysum þegar ættingjar sjúklinga átta sig og grípa til eigin ráða. Af þessu eru til sögur sem ef til vill væri rétt að birta með tíð og tíma.

Annars vegar er margt góðviljað og trúgjarnt fólk á ferð sem bendir á að Jesús hafi læknað blinda o.s.frv. Hér áður fyrr máttum við tvíburarnir iðulega þola ágang slíks fólks, sem sumt var úr sértrúarsöfnuðum, en annað hrjáði eitthvað enn annað. Ollu þessi ummæli undirrituðum miklu hugarangri og jafnvel örvilnan, þegar hann áttaði sig á því á 10. Og 11. Ári, að sjónin færi þverrandi og hyrfi sjálfsagt alveg. Bænir barnsins hrifu ekki – kannski hefur trú þess ekki verið nógu mikil.:)

 

Fótabað gegn blindu

Mér var eitt sinn gefið mjög fýsilegt ráð sem ég hef aldrei fylgt.

Sveitungi okkar Guðjóns sigurðssonar, formanns MND-félagsins, fór eitt sinn á fyllirí. Maður þessi var dagfarsprúður og fámæltur en færðist allur í aukana þegar þeir Bakkus áttu samleið. Svo vildi til að hann var staddur hjá frænku minni í eldhúsinu, þegar mig bar að garði, sennilega hef ég verið á 10. ári. Maðurinn sagðist kunna óbrigðult ráð gegn blindu.

„Náðu í vaskafat, þegar þú ert háttaður, fylltu það af köldu vatni og farðu í fótabað. Þegar þér er orðið jökulkalt á fótunum skaltu flýta þér inn í herbergi og skella þér upp í rúm. Þú mátt ekki láta nokkurn mann vita af þessu. Nú, þegar þú vaknar á morgun sérðu betur en ég!“

Frænka mín trúði þessu ekki og sagði þessa sögu einatt þegar sagna var þörf.

Þessu heillaráði er hér með komið á framfæri, ef einhver vill reyna það.

 


mbl.is Selja dauðvona sjúklingum von
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

...en það sem er tragíkómískt við þessa umfjöllun  - er að hún mun engin áhrif hafa - ekki frekar en jónaða vatnið á 3 þúsund kall eða pendúll á 50 þús kallinn.

Sjúklingar munu eftir sem áður leita allra leiða, ekki bara hjá læknum með vísindalega þekkingu, heldur hjá öllum hinum líka. Og eyða aleigunni í þetta. Vonin nefnlega hverfur ekkert þótt svona stríðni í sjónvarpsþætti geri það að verkum að skottulæknar hafi sig kannski hæga í nokkrar vikur. Síðan byrjar allt aftur og salan nær aftur fyrri hæðum.

jón (IP-tala skráð) 4.3.2015 kl. 09:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband