Versnandi aðgengi að vefsíðum og máttleysi Öryrkjabandalagsins

Svo virðist sem aðgengi að opinberum vefsíðum fari versnandi hér á landi. Þrátt fyrir yfirlýsta stefnu um að heimasíður skuli aðgengilegar í samræmi við aukið upplýsingaaðgengi virðist sem fleiri og fleiri fyrirtæki og stofnanir gleymi þessum þætti.
Í lögum um Ríkisútvarpið er kveðið skýrt á um að leitað skuli tæknilegra lausna til að bæta aðgengi blindra og sjónskertra. Það gleymist iðulega þegar vefur Ríkisútvarpsins er uppfærður og iðulega er ekki hafist handa við að bæta aðgengið fyrr en einhver kvartar.
Síðasta dæmið sem ég hef rekist á er síða Vinnumálastofnunar. Þar getur einstaklingur, sem notar skjálesara, ekki lokið skráningum. Hafi skráningarskjalið verið vistað til bráðabirgða finnur skjálesarinn enga leið til að opna það. Ýmislegt fleira mætti nefna þessari síðu til foráttu, enda sjást engin dæmi þess að hún hafi verið vottuð af til þess bærum aðilum.
Það var sorglegt að ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna skyldi ekki hafa döngun í sér til þess að setja eða a.m.k. reyna að fá samþykkt lög um upplýsingaaðgengi.
Eitt sinn dáðist vinur Davíðs Oddssonar að því að Davíð hefði þaggað niður í Öryrkjabandalagi Íslands um leið og hann fór í Seðlabankann. Þegar þessu var andæft sagði vinurinn: "Jú, takið eftir að enginn tekur lengur mark á Öryrkjabandalaginu því að við sáum um að planta réttum manni á réttan stað á réttum tíma."
Nú er þessi rétti maður löngu hættur, en einhvern veginn virðist Öryrkjabandalag Íslands vera hálflömuð stofnun sem má sín lítils og formaðurinn ekki einu sinni úr hópi fatlaðra. Að minnsta kosti hefur upplýsingaaðgengið alveg horfið af metnaðarlista bandalagsins. Hvað segja félög eins og Blindrafélagið, Félag heyrnarlausra og Félag lesblindra við þessari þróun?
Að lokum: Er þetta viðeigandi yfirlýsing á vefsíðu Öryrkjabandalagsins? "...fatlað fólk á rétt á viðeigandi lífskjörum..." Hvaða lífskjör eru viðeigandi fötluðu fólki?
 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband