Síðasta Reykjavíkurbréf Morgunblaðsins birtist í Mogganum í gær og vakti talsverða athygli. Lýðum má vera ljóst að Davíð Oddson ritaði bréfið, enda víkur hann að sjálfum sér beinum orðum og er því bréfið merk heimild um afstöðu til verkstjórnar í ríkisstjórn og ráðuneytum.
Þótt bréfið sé á köflum skelmislega skrifað eins og tíðkaðist á meðal MR-nemenda í lok 7. áratugarins er þó margt athyglisvert í málflutningi bréfritara. Þess vegna er það birt hér í leyfisleysi fólki til fróðleiks.
"Seinasta bréf fjallaði um efnahagslegar refsiaðgerðir og viðskiptaþvinganir bæði almennt og svo um síðbúna þátttöku Íslands í slíkum aðgerðum gegn Rússum og loks framlengingu þeirra í pukri.
Skynjuðu ekki alvöruna?
Þarna er um alvarlega aðgerð í eðli sínu að ræða og í tilviki Íslendinga var skyndilega ákveðið að beita mikilvægt viðskiptaland til áratuga refsiaðgerðum.
Í Reykjavíkurbréfinu var, sjálfsagt í barnaskap, gert ráð fyrir því, að íslensk yfirvöld og utanríkisráðuneytið sérstaklega, hefðu unnið sína heimavinnu með fullnægjandi hætti.
Þess vegna lauk Reykjavíkurbréfinu með þessum orðum: Ekki hefur verið upplýst hvort fyrir liggi í utanríkisráðuneytinu skýrsla um það, hvaða efnahagslega áhætta fylgdi því að bjóða Ísland fram sem sjálfboðaliða í refsiaðgerðum. Slík skýrsla hlýtur þó að liggja fyrir og hafa verið kynnt í ríkisstjórn landsins áður en tillögur ráðherrans um refsiaðgerðir voru samþykktar.
Skýrslan hefur vafalítið verið rædd í utanríkismálanefnd, hugsanlega í trúnaði. Það er engin ástæða til að halda þeim trúnaði lengur. Hafi utanríkismálanefnd samþykkt þátttöku Íslands fyrir sitt leyti, eftir að hafa farið rækilega yfir áhættumat vegna þeirrar aðgerðar, er skiljanlegra að nefndin árétti nú í kór fyrra álit sitt án nokkurrar raunverulegrar skoðunar.
En sjálfsagt er og nauðsynlegt að yfirvöld birti almenningi nú þegar áhættumatsskýrsluna svo bera megi þær spár, sem þar koma fram, við þann veruleika sem nú blasir við.
Eftir að hafa stappað svaðið og gefið ljónunum af tröppum Stjórnarráðsins á fjórtánda ár og svo í rúmt ár þar á eftir rjátlað um á ráðherraskrifstofu utanríkisráðuneytisins taldi bréfritari sig vita ekki verr en aðrir, hvaða kröfur væru gerðar til mikilvægra ákvarðana, sem legðu ríkar skuldbindingar á Ísland og í þessu tilviki mjög íþyngjandi skuldbindingar.
Það sem virtist óhugsandi
Það virðist ekki einu sinni hafa verið muldrað upphátt um svo mikilvæg efnisatriði, sem áhættu fyrir íslenska þjóðarbúið, svo færa mætti til bókar í ríkisstjórn eða í utanríkismálanefnd Alþingis.
Á síðasta kjörtímabili tíðkuðust vissulega slík vinnubrögð. Þáverandi forsætisráðherra las ekki samninga um Icesave áður en ríkisstjórnin sem ráðherrann var í forsæti fyrir samþykkti þá. Í framhaldinu gerði ráðherrann svo kröfur til stjórnarþingmanna um að þeir gerðu ólesnir það sama. Hótaði ráðherrann afsögn að öðrum kosti. Stjórnin sú rauk í að breyta stjórnarskrá landsins án þess að nokkur nauð stæði til þess og án þess að gerð hefði verið vönduð áætlun fyrir þær breytingar. Var stjórnarskrárferlið uppfært í sirkusbúning og má því nærri geta hverjir settu gleðiríkastan svip á sýninguna.
Sótt var um aðild að Evrópusambandinu fyrir Íslands hönd án atbeina þjóðarinnar og án þess að rætt hefði verið, innan stjórnarliðs eða í þinginu, hver hlytu að verða ófrávíkjanleg markmið Íslands með slíku.
Síðar kom á daginn að Evrópusambandið er löngu hætt að fara í samningaviðræður við umsóknarríki. Sambandið gengur lengra. Það beinlínis bannar slíkar viðræður og setur fram tilmæli til forsvarsmanna umsóknarríkja að þeir láti vera að ljúga því að löndum sínum að samningaviðræður eigi sér stað! Enginn hefur enn sagt Árna Páli Árnasyni samfylkingarformanni frá þessu og hann hefur ekki leitað neinna upplýsinga og heldur því enn að Ísland hafi farið í aðildarferli undir verkferlum sem tíðkuðust fyrir langa löngu og hafa ekki einungis verið lagðir af heldur beinlínis bannaðir.
Þessi dapurlegu dæmi frá síðasta kjörtímabili og annar slíkur vandræðagangur og óbrúklegt verklag áttu að heyra sögunni til við langþráð stjórnarskipti. En stundum virtist að utanríkisráðuneyti Íslands (og raunar fleiri ráðuneyti) hefði ákveðið að taka ekki þátt í stjórnarskiptunum og bíða ríkisstjórn Sigmundar Davíðs af sér.
Nýja ríkisstjórnin sýndi að hún vildi ekki gera veður út af þessum sérkennilegheitum og gerði aðalsamningamann samningaviðræðna, sem fóru ekki fram, að ráðuneytisstjóra í utanríkisráðuneytinu. Reynslan af því liggur fyrir. Fagráðherrann tekur hins vegar heiti ráðuneytisins alvarlega og heldur sig helst utan ríkis og lætur sína menn (eins og Össur kallaði þá og gerir víst enn) um alla stefnumótun, sem er létt verk, enda stefnan í stórum dráttum óbreytt. Reynslan af því er líka kunn.
En þar sem heimavinna og lágmarksáhættumat vegna aðildar Íslands að refsiaðgerðum gegn Rússum var ekki gert er komið í mikil óefni.
Reyndist enn ömurlegra
En að auki var ekki heldur athugað og kynnt viðeigandi aðilum hvert eðli viðskiptabanns á Rússa er.
Í ljós hefur komið að ekki er um eiginlegar viðskiptalegar þvinganir að ræða heldur diplómatískan bútasaum. Þetta kom vel fram hjá framkvæmdastjóra Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi í samtali hans við Bylgjuna sl. fimmtudag: Það er engin þjóð í Evrópu, nú hvað þá Bandaríkin eða Kanada, sem hefur viðlíka hagsmuni af viðskiptum við Rússland hvað varðar matvæli, og það eru jú bara matvæli sem eru undir. Það eina sem er lokað á er innflutningur á þeim. Það þarf að hafa í huga að það eru enn þá full viðskipti í gangi á milli þessara landa allra saman. Það eru fluttir inn bílar frá Þýskalandi og tískufatnaður frá Ítalíu, og á móti kemur olía og gas til Þýskalands og Evrópu allrar, en það eru matvæli eingöngu sem þarna lenda undir og það er nú bara svo að Ísland er næststærsti innflytjandi á fiskafurðum til Rússlands af öllum löndum í heiminum og fyrir litla þjóð eins og okkar eru þetta náttúrlega gríðarlega stórir hagsmunir.
Þessar upplýsingar eru svo sem nógu alvarlegar.
En aðrar og mun alvarlegri eru þessar: Þá væri einnig mikilvægt að átta sig á að ekki væri um almennt viðskiptabann að ræða, heldur væri bannið sniðið að þremur þáttum, hergögnum, viðskiptum við tiltekna banka og flutningi og frystingu eigna tiltekinna einstaklinga.
Viðskiptabannið er sem sagt lagað að hagsmunum þeirra sem ákvarðanir tóku um hvernig það skyldi útfært.
Óskoðað mál
Sagði enginn í utanríkisráðuneytinu ráðherranum frá því, þegar hann leit við heima, um hvers konar viðskiptabann væri að ræða? Og ef þeir gerðu það, kom hann þá þeim upplýsingum á framfæri við ríkisstjórnina?
Var ESB og Bandaríkjunum virkilega mikið í mun að fá loforð frá íslenskum yfirvöldum um að selja Rússum ekki hergögn? Eða að þeir hættu viðskiptum við tiltekna rússneska banka? Og að þeir frystu eignir Rússa á Íslandi? Á einhver Rússi eignir á Íslandi? Hélt utanríkisráðuneytið að þetta gæti verið mikilvægur þáttur þar sem svo mörg frystihús væru til staðar hér á landi?
Var enginn sem treysti sér til að upplýsa ESB og Bandaríkin um það, að sá her, sem íslenska ríkisstjórnin óttast mest, er svokallaður bloggher hinna virku á netinu. Þeim her tókst að koma í veg fyrir að Landhelgisgæslan mætti taka á móti fáeinum afskrifuðum vélbyssum Norðmanna, sem fást áttu gefins, áður en rokan hófst, en voru svo metnar fyrir siða sakir á upphæð sem bílasala auglýsti að fengist fyrir tveggja ára gamlan Range Rover.
Hafi bandamenn okkar talið að stórhætta væri á að íslensk yfirvöld kynnu að selja Rússum þessar byssur og þar með breytt valdajafnvæginu í heiminum, þá er sú hætta liðin hjá. Blogghernum og pírötum, sem sögðust kannast við þessi vopn úr tölvuleikjum sínum, má þakka það.
Benda hefði mátt bandamönnum á að teygjubyssur væru ekki lengur framleiddar á Íslandi. Íslensku varðskipin hefðu lengst af notast við danskar fallbyssur sem ekki hefði verið pláss fyrir á danska Þjóðminjasafninu og börn á leikskólaaldri notuðu þær vatnsbyssur sem til eru í landinu. Og hitt væri alkunna að síðasti boginn sem eitthvað mátti sín fór strenglaus með Gunnari í hauginn og Rimmugýgur Skarphéðins væri týnd og lyti þjóðminjalögum ef öxin fyndist. Ekkert fyrir Rússana að hafa þar.
Getur það virkilega verið að íslensk yfirvöld hafi talið nauðsynlegt að létta áhyggjum af vestrænum herveldum svo þau teldu ekki hættu á að Ísland kynni eitt og sér að efla herstyrk annars helsta kjarnorkuveldis heimsins?
Í fullri alvöru
Eða án alls gamans, datt engum einasta manni í hug að refsiaðgerðum gegn Rússum, sem sniðnar voru með framangreindum hætti, gætu Íslendingar ekki tekið þátt í.
Vafalaust er að hefðbundnir bandamenn okkar hefðu skilið þá afstöðu á auga bragði, hefði einhver haft manndóm til að skýra málið. Allir vitibornir menn hefðu séð að Íslendingar væru ekki að skerast úr leik. Þeir hefðu ekkert fram að færa til refsiaðgerða sem þannig voru saumaðar með kúnstsaum.
Hefðbundnir bandamenn okkar myndu aldrei hafa gert kröfu til þess, að Íslendingar yrðu sú þjóð sem mesta áhættu allra tæki vegna þátttöku í þessu veiklulega viðskiptabanni ESB og Bandaríkjanna. Það vita allir að þetta viðskiptabann skiptir engu. Það er olíuverðslækkunin sem gerir Rússum erfitt fyrir. Refsiaðgerðirnar eru hrein sýndarákvörðun. Hvernig gat það gerst að íslensk yfirvöld ákváðu að stefna álitlegum hluta íslensks útflutnings í stórhættu, af þeirri ástæðu einni að fréttir hefðu borist af því, að þriðji sendiráðsritari einhvers staðar hefði náð sambandi við eina aðstoðarskrifstofustjórann í íslenska utanríkisráðuneytinu, sem var í húsinu þegar hinn hringdi vegna málsins.
Hefur utanríkismálanefnd, sem samþykkti allt einum rómi í tvígang, án þess að skoða nokkurt gagn, fengið upplýsingar um það, við hvern íslenski utanríkisráðherrann ræddi áður en hann ákvað að óhjákvæmilegt væri að setja íslenskan útflutning í uppnám vegna refsiaðgerða, sem við gætum ekki lagt neitt til, þótt við fegnir vildum? Var það einvörðungu þriðji sendiráðsritarinn fyrrnefndi sem kom að málinu eða var það aðstoðarmaður hans sem náði í dyravörðinn í íslenska utanríkisráðuneytinu?
Er ekki þetta ball búið?
Hver sér ekki nú að það þarf að binda enda á þennan skaðlega flumbrugang án tafar?
Yfirvöld geta borið sig að með hverjum þeim hætti sem þeim þykir viðeigandi.
En þó er sú undantekning gerð frá þeirri reglu, að fyrsta skrefið í þá átt má alls ekki vera það, að starfsmenn utanríkisráðuneytisins semji bréf til ESB sem ráðherrann skrifi síðan blindandi undir.
Ef það telst vera eina færa leiðin þá er eins gott að henda þessum 35 milljörðum króna í hafið án frekari viðhafnar.
Og svo er auðvitað rétt að trufla ekki utanríkismálanefnd frekar. Sú nefnd hefur í ESB-málinu og nú í þessu rækilega sannað gagnsemi sína. Best er að fá engar fréttir af henni, nema þá helst þegar hún afgreiðir mál einum rómi. Þá er rétt að kynna sér alls ekki niðurstöðuna."
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | 16.8.2015 | 21:24 | Facebook
Tónlistarspilari
Tenglar
Fonix.blog.is
Helena Björnsdóttir þjálfuð til þess að nýta sér blindrahund
Bloggvinir
- alla
- axelthor
- arnibirgisson
- ormurormur
- astafeb
- bjarnihardar
- gattin
- dora61
- saxi
- jaherna
- jovinsson
- fjarki
- gislisigurdur
- gudni-is
- gelin
- gummigisla
- heidistrand
- helgigunnars
- hildurhelgas
- himmalingur
- hoskibui
- isleifur
- jakobk
- fun
- jonhalldor
- jon-o-vilhjalmsson
- nonniblogg
- juliusvalsson
- kje
- kristbjorggisla
- methusalem
- mortenl
- moguleikhusid
- skari60
- rafng
- ragnar73
- fullvalda
- duddi9
- siggisig
- saemi7
- vefritid
- thorirj
Jan. 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | |||
5 | 6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 |
12 | 13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 |
19 | 20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 |
26 | 27 | 28 | 29 | 30 | 31 |
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Evrópumál
- Ferðalög
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kínversk málefni og menning
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 3
- Sl. sólarhring: 3
- Sl. viku: 12
- Frá upphafi: 319774
Annað
- Innlit í dag: 3
- Innlit sl. viku: 12
- Gestir í dag: 3
- IP-tölur í dag: 3
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.