Óskorað fullveldi og náttúruvernd - grein eftir Hjörleif Guttormsson

Fyrir nokkru birti ritstjóri þessarar síðu vangaveltur um næstu ríkisstjórn.

Í dag birtist í Morgunblaðinu aðsend grein eftir Hjörleif Guttormsson, náttúrufræðing, um sama mál með góðum rökstuðningi. Greinin er birt hér með leyfi höfundar..

Nú er að sjá hvort Vinstri grænir bera gæfu til að slíta sig frá Samfylkingunni og vinna að þjóðarheill.

 

Þriðjudaginn 31. október, 2017 - Aðsent efni

Óskorað fullveldi og náttúruvernd meðal brýnustu verkefna nýs þings og ríkisstjórnar

Eftir Hjörleif Guttormsson

 

Spenna vegna alþingiskosninga er liðin hjá og nú sitja margir og rýna í niðurstöðuna. Stutt kosningabarátta einkenndist sem fyrr af tíðum skoðanakönnunum, sem lengi vel voru fjarri því sem kom upp úr kössunum. Sjálfstæðisflokkurinn með fjórðung atkvæða má allvel við niðurstöðuna una og eins Framsóknarflokkurinn, en báðir þessir gamalgrónu flokkar áttu í vök að verjast í aðdraganda kosninganna. VG hélt sínu en nuddar nú stírur úr augum eftir velgengni í skoðanakönnunum. Samfylkingin rétti úr kútnum frá því fyrir ári, mest út á hrun Bjartrar framtíðar. Gnarr sem andlegur leiðtogi þess horfna þingflokks flutti sig yfir til krata við upphaf kosningahríðar. Yfir 10% fylgi til Sigmundar Davíðs telst til tíðinda og Flokkur fólksins skilaði sömuleiðis uppskeru út á einsmanns atorku. Píratar mega muna sinn fífil fegri og Viðreisn hangir á bláþræði.

Stjórnarmyndun sem veigur væri í

Tölulega gæti þrenns konar mynstur skilað meirihlutastjórn eftir úrslitin. 1) Hægristjórn undir forystu Sjálfstæðisflokksins með þátttöku Framsóknar, Miðflokks og Viðreisnar og styddist sú við 35 þingmenn. 2) „Vinstri stjórn“ fjögurra flokka undir forystu VG með aðild Samfylkingar, Framsóknar og Pírata hefði aðeins 32 þingmenn til að styðjast við og því þyrfti fimmti flokkur að koma til sem varahjól. 3) Blandað þriggja flokka stjórnarmynstur frá hægri til vinstri með þátttöku VG, Framsóknar og Sjálfstæðisflokks hefði 35 þingmenn við að styðjast og væri á vetur setjandi. Að loknum kosningum fyrir ári taldi ég að mynda ætti slíka stjórn og skoðun mín er óbreytt, enda sýni viðkomandi flokkar sveigjanleika sem dygði til að koma á slíku samstarfi. Vænlegast er að slíkt samstarf væri undir forsæti Katrínar Jakobsdóttur og félli þá fjármálaráðuneytið í skaut Bjarna Benediktssonar og utanríkismálin yrðu á hendi Lilju Daggar Alfreðsdóttur. Kjör hennar á þing, þrátt fyrir klofningsframboð Sigmundar Davíðs, felur í sér ánægjulegustu tíðindi þessara kosninga. Stjórn af þessum toga sem styddist við flokka með rótfestu í flestum kjördæmum gæti orðið trygging fyrir stöðugleika í stjórn landsins.

Brýnustu framtíðarverkefnin

Málefnaumræðan í aðdraganda kosninganna var óvenjulega einsleit þar sem flestir flokkar töldu heilbrigðis-, mennta- og húsnæðismál vera brýnustu úrlausnarefnin. Ekki skal dregið úr því að slíkir undirstöðuþættir kalla í senn á stefnumörkun og fjármuni og ættu stöðugt að vera á dagskrá stjórnvalda. Að mínu mati lágu hins vegar önnur vegvísandi stefnumál í láginni, þótt vitað sé þar um mikinn ágreining milli flokka eða vinna að þeim hefur verið vanrækt af opinberri hálfu. Þar eru mér efst í huga frambúðarsamskipti Íslands við Evrópusambandið og stefnumörkun í umhverfismálum og náttúruvernd. Ólík sýn stjórnmálaflokka hérlendis á tengsl Íslands við ESB hefur verið kraumandi í stjórnmálaumræðunni í fullan aldarfjórðung og flokkar tekið hamskiptum eða farið kollhnís í afstöðu sinni. Umsókn naums meirihluta á Alþingi um aðild Íslands að ESB sumarið 2009 er stærsta óheillaskref síðari ára og endaði 2013 í útideyfu og ráðleysi upphafsmanna. Meirihluti hefur aldrei reynst vera fyrir slíkri aðild samkvæmt skoðanakönnunum og andstaðan hefur farið vaxandi. Í aðdraganda fullveldisafmælis er eðlilegt að hreinsa burt þessa óværu og taka síðan EES-samninginn til endurskoðunar í ljósi fenginnar reynslu og með hliðsjón af Brexit-útgöngu Breta úr Evrópusambandinu. Nýrri ríkisstjórn ofangreindra þriggja flokka ætti að vera treystandi til að hafa forystu í þessu grundvallarmáli.

Náttúru- og umhverfisvernd í forgang

Undarlega hljótt var fyrir kosningar um stefnu og verkefni í umhverfis- og náttúruverndarmálum. Af einhverjum óútskýrðum ástæðum hafði flokkurinn sem tengir nafn sitt við grænt framboð þau örlagaríku mál nánast í þagnargildi. Ásamt kjarnorkuógninni er þó ekkert jafn skýrt letrað á vegginn varðandi framtíð síðmenningar okkar og afleiðingar óbreyttrar siglingar í umgengni við móður jörð. Parísarsamkomulagið í loftslagsmálum er óskuldbindandi óskalisti og óútfærður af Íslands hálfu. Aðrir þættir sem snúa að meðferð náttúruauðlinda og umgengni við landið eru víða í miklum ólestri. Vatnsaflsvirkjanir 10 MW og meira að afli lúta rammaáætlun, en fjöldi smærri virkjana er í undirbúningi eftirlitslítið í hagnaðarskyni. Menn fagna tekjum af ferðamannastraumi en víða er hætta á örtröð nema við verði brugðist. Hér reynir á skipulag og samþætt tök ríkis og sveitarfélaga. Að vori er kosið til sveitarstjórna og fyrir þann tíma þurfa Alþingi og ríkisstjórn, að gefa leiðsögn og svör um sinn þátt. Fráfarandi umhverfisráðherra sýndi góða viðleitni, en flokkur hennar hljóp frá verkunum. Ný ríkisstjórn þarf að taka umhverfimálin föstum tökum og auka til muna fjármagn til þeirra, m.a. í landvörslu. Þar á hún vísan hugmyndalegan hljómgrunn hjá æskufólki sem í vaxandi mæli setur spurningarmerki við þau óheillavænlegu vistspor sem nútíma neyslusamfélag skilur eftir sig. Þennan hljómbotn þarf að nýta og þar á Alþingi allt að sameinast um að gefa tóninn.

Höfundur er náttúrufræðingur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband