Íslenskir skattsvikarar og sannkristinn smiður

Katrín Jakobsdóttir hefur um nokkurt skeið verið minn uppáhálds stjórnmálamaður og ráðherra. Ég er að vísu ekki í flokknum af persónulegum ástæðum því að á meðal áhrifafólks eru þar einstaklingar sem þjást af of miklum siðferðisskorti til þess að ég telji mig eiga samleið með þeim. Vanþroski minn er slíkur.
Í morgun greindi Ríkisútvarpið frá ræðu sem Katrín flutti í gær á ráðstefnu hjá OECD. Þar fullyrti hún að skattsvik væru hluti af þjóðarvitund Íslendinga, ef ummælin eru trúlkuð réttilega. Rakti hún það til norskra landeigenda sem felldu sig ekki við að greiða Haraldi hárfagra skatta og fóru því úr landi.
Haft var eftir Katrínu að umræðan gegn skattsvikum hefði í raun ekki komist á flug fyrr en eftir hrun. Minntist ég þá þess sem gerðist á 7. áratugnum í ónefndum kaupstað á Íslandi að verkafólk í fiskvinnslu greiddi jafnvel hærri skatta en sumir atvinnurekendur.
Katrín hefur kannski bætt því við að enn sé fólk sem svíkur bligðunarlaust undan skatti en ætlast þó til fullrar þjónustu frá hinu opinbera.
 Ég hef hitt ýmsa skattsvikara í áranna rás og hafa þeir verið misjafnelga óskemmtilegir. Minnisstæðastur er mér maður sem verslun nokkur mælti með til að setja saman húsgögn. Hann var í kristnum söfnuði í Kópavogi, bjó með íslenskri konu sem hann hafði kynnst í Guðs eigin landi, átti með henni börn, en hún leigði hjá honum og einhverjar tilfæringar í öllu þessu voru til þess ætlaðar að komast hjá sköttum og skyldum.
Þegar kom að uppgjöri vegna húsgagnasamsetningarinnar krafðist hann nótulausra viðskipta. Þar sem hann hafði vitnað oft í bæði testamentin í samræðum okkar spurði ég hvort hann myndi eftir því sem frelsarinn hefði sagt um að greiða keisaranum það sem keisarans væri og guði það sem tilheyrði honum.
"Mig varðar ekkert um einhvern andskotans kóng eða keisara," svaraði hann.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband