Jafnréttisbarátta kvenna

Enn er runninn upp kvennafrídagur á Íslandi. Vonandi verður hann einn liður þess að skila konum áfram í baráttunni gegn ofríki karla.

Árið 1975, 16. október, komum við Páll bróðir ásamt félögum okkar, Lárusi Grétari Ólafssyni og Magnúsi Karel Hannessyni heim úr mikilli Kínaferð.
Daginn eftir fór ég eins og ráð var gert fyrir í tíma í Háskólanum og það fyrsta sem ég frétti var ákvörðunin um kvennafrídag eða kvennaverkfall föstudaginn 24. okt. Mér þótti þetta stórkostleg hugmynd.
Ég minnist þess að sumar rosknar konur voru ekki hrifnar. Þegar ég spurði móður mína hvor hún ætlaði ekki á fundinn brást hún reið við og sagði að sér fyndist lítið gert úr hlutverki húsmæðra með þessu uppátæki. Reyndar hafði það einnig farið á sinnið á henni þegar rauðsokkur fóru að tala um sérstaka kvennamenningu. Hún taldi sína menningu hluta af íslenskri menningu en ekki eitthvert sérfyrirbæri.
Ekki rifja ég þetta upp henni til lasts, enda heyrði ég hana iðulega gera góðlegt gys að karlmönnum.
Eitt sinn sat hún á spjalli við vinkonu sína, en við synir þeirra vorum og erum enn góðir vinir. Töluðu þær m.a. um bjargarlleysi karlmanna og töldu víst að við dæjum frekar úr hungri en að við reyndum að bjarga okkur við matseld, ef þær féllu frá áður en einhverjar konur tækju við okkur.
"Það er það, eins og Andri Ísaksson sagði iðulega."
Ég minnist þess að hún fann til með einstæðum konum í Vestmannaeyjum sem háðu harða baráttu til þess að sjá sér farborða. Sem ung kona þurfti hún að berjast fyrir jafnháu kaupi við verslunarstörf og karlmenn fengu og ekki batnaði ástandið þegar hún ákvað að taka bílpróf. Fundu karlmenn henni það til vansa og héldu sumir því fram að konur gætu það ekki. En hún beitti þeim rökum sem afvopnuðu þá og tók auðvitað bílprófið.
Til hamingju með daginn, allar Íslands konur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband