Þrymskviða vaknar af þyrnirósarsvefni

Í fyrrakvöld var gamanópera Jóns Ásgeirssonar, Þrymskviða, flutt í Norðurljósal Hörpu við mikinn fögnuð áheyrenda. Var hún svo - öðru sinni flutt í gærkvöld og ætlaði allt um koll að keyra í lok sýningar, slík var hrifning áheyrenda.

 

Í föstudagsblaði Morgunblaðsins 26. október, fjallaði Guðrún Erlingsdóttir um sýninguna.

 

    1. Brot úr umfjöllun Guðrúnar

„Ég skil ekki af hverju Þrymskviða hefur ekki verið sett oftar upp. Það eru ekki til margar íslenskar óperur og gamanóperan Þrymskviða var sú fyrsta sem sett var á svið. Þetta er alveg frábær ópera sem sýnd var í fyrsta og eina skiptið á sviði 1974,“ segir Bjarni Thor Kristinsson, bassi sem leikstýrir Þrymskviðu sem flutt verður í Norðurljósasal Hörpu í kvöld og annað kvöld kl. 20.

Bjarni segir að höfundur Þrymskviðu, tónskáldið, Jón Ásgeirsson, hafi fagnað 90 ára afmæli nýverið og það hefði þótt tilhlýðilegt í tilefni þess og 100 ára fullveldis Íslands að setja óperuna á svið aftur.

„Það er mikið lagt í sýninguna sem skartar átta góðum einsöngvurum auk Háskólakórsins sem fer með hlutverk ása og þursa. Í kórnum syngja 70 manns og 40 manna Sinfóníuhljómsveit unga fólksins sér um tónlistina,“ segir Bjarni Thor og bætir við að mikil áhersla hafi verið lögð á að breyta Norðurljósum Hörpu í framúrstefnulegt leikhús og það verði spennandi að sjá hvernig áhorfendur taki þeim breytingum.

Stjórnandi Þrymskviðu er Gunnsteinn Ólafsson, stjórnandi Háskólakórsins. Einsöngvarar í óperunni eru þau Guðmundur Karl Eiríksson baritónn í hlutverki Þórs, Keith Reed bassa-baritónn í hlutverki Þryms, Margrét Hrafnsdóttir sópran í hlutverki Freyju og Agnes Þorsteinsdóttir mezzósópran í hlutverki Grímu. Þorsteinn Freyr Sigurðsson tenór syngur hlutverk Heimdallar, Eyjólfur Eyjólfsson tenór hlutverk Loka, Gunnar Björn Jónsson hlutverk 1. áss og Björn Þór Guðmundsson hlutverki 2. áss.

Óperan Þrymskviða fjallar á gamansaman hátt um það þegar þrumuguðinn Þór uppgötvar að hamar hans, Mjölnir, er horfinn. Þrymur þursadrottinn hefur rænt Mjölni og heimtar Freyju í lausnargjald en hún er ófáanleg til þess að fórna sér fyrir hamarinn. Þór bregður þá á það ráð að fara til Jötunheima í kvenmannsgervi í því skyni að endurheimta vopn sitt í fylgd Loka Laufeyjarsonar.”

 

    1. Upplifun undirritaðs

Undirritaður fór á Þrymskviðu árið 1974 og hreifst svo að hann hefur verið haldinn Þrymskviðuheilkenninu síðan. Þegar óperunni var útvarpað á sumardaginn fyrsta (sennilega 1977) hljóðritaði ég flutninginn og hef hlustað -öðru hverju síðan á valda kafla.

Þegar ljóst varð að óperan yrði sýnd rifjaði ég upp gömul kynni og urðu þau enn kærari. Hver laglínan og arían rifjaðist upp fyrir mér og úr varð nær skefjalaus tilhlökkun.

 

    1. Hvernig tókst svo til?

Ég fór í gærkvöld ásamt sonarsyni og vinkonu okkar að njóta óperunnar – sennilega í 7. skipti, en mér telst til að ég hafi farið 6 sinnum á hana árið 1974. Elín, kona mín, hafði farið kvöldið áður ásamt sonarsyni og naut sýningarinnar – heillaðist af óperunni.

Flutningurinn stóð fyllilega undir væntingum. Ljóst var að tónskáldið hafði gert ýmsar breytingar á verkinu og þóttu mér þær flestar til bóta.

Það var mikill munur á flutningi Þrymskviðu frá því að Jón Ásgeirsson stjórnaði flutningnum í Þjóðleikhúsinu fyrir 44 árum. Þá var gangur verksins nokkru hægari en undir stjórn Gunnsteins Ólafssonar og kór Þjóðleikhússins hljómaði með allt öðrum hætti en Háskólakórinn, þar sem ungar raddir setja svip sinn á flutninginn. Segja verður hverja sögu eins og er að flutningurinn var á stundum unaðslegur.

 

    1. Áhrifin

Undir eins í hinu magnaða upphafi óperunnar fór hugurinn á flug og undirritaðan langaði mest að syngja með. En þar sem nokkuð skorti á fegurð raddar hans hélt hann aftur af sér til að spilla ekki ánægju sessunauta sinna.

En iðulega sló hann taktinn og bærði varirnar – söng innra með sér.

Hámarki náði sönggleði mín þegar kom að lokaaríunni. Þá gat ég ekki hamið mig en söng áttund lægra en kórinn sjálfur og ekki af miklum raddstyrk, enda hefur hann dvínað nokkuð með aldrinum.

 

    1. Frammistaðan og umgjörðin

Ungviðið í kórnum og hljómsveitinni, sem hafði einnig á að skipa nokkrum atvinnumönnum, stóð sig að flestu leyti frábærlega. Gunnsteinn stýrði óperunni af mikilli röggsemi svo að efni hennar komst vel til skila.

Einsöngvarar áttu góða spretti. Eins og venjulega var fremur erfitt að greina textann á stundum eins og gengur og gerist þegar óperur eru fluttar á íslensku.

Leikstjórn og sviðssetning var til mikillar fyrirmyndar. Ýmislegt var fært til nútímahorfs. Þannig virtust Jötunheimar vera allsherjar eiturlyfjabæli og greinilegt var að Þór og fleiri áttu í talsverðum viðskiptum. Allt jók þetta á ánægju áhorfenda.

 

Gunnsteinn á miklar þakkir skyldar fyrir þetta einstaka framtak sitt. Um hitt má síðan spyrja hvers vegna í ósköpunum Íslenska óperan skyldi ekki taka Þrymskviðu upp að nýju í tilefni af níræðis afmæli Jóns Ásgeirssonar. Í staðinn hljótum við að vænta þess að einhver þeirra ópera, sem eftir hann liggja og hafa ekki verið fluttar, verði tekin til sýningar.

 

    1. Að lokum:

Aðstandendum öllum eru færðar einlægar þakkir fyrir gott menningarafrek og tónskáldinu þakka ég af heilum hug fyrir að hafa gefið þjóðinni menningarverðmætið, óperuna ÞrymskviðuheilkenninuEf nokkuð getur aukið áhuga Íslendinga á menningarsögu sinni eru það verk eins og Þrymskviða.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband