Þarf að stofna nýtt blindrafélag?

Það sækir nú stöðugt að mér að stofna nýtt blindrafélag, félag fólks með svo litla sjón að hún nýtist engan veginn.
Mér hefur fundist að Blindrafélagið fjarlægist nú æ meira raunverulega hagsmunagæslu þeirra sem eru um eða alveg alblindir.
Þetta yrði væntanlega ekki fjölmennt félag, enda eru alblindir Íslendingar lítill minnihlutahópur sem á stöðugt undir högg að sækja í samfélaginu.
Mér skilst t.d. að nú liggi fyrir Alþingi að staðfesta tilskipun Evrópusambandsins um aðgengi að öllum vefsíðum. En lítið kvað bóla á áhuga stjórnvalda í þeim efnum.
Aðgengi að íslenskum fréttasíðum hefur farið versnandi nema Morgunblaðsins sem heldur enn sínu góða striki.
Tökum Kjarnann sem dæmi.
Ómarkviss notkun hausa "headers" gerir lestur Kjarnans mun erfiðari þeim sem nota talgervil eða blindraletur og ristjórar og eigendur Dagblaðsins hafa lítið gert til þess að áður nefndur hópur geti lesið blaðið án vandræða.
Nýtt blindrafélag, jafnvel þótt lítið væri, gæti orðið harður hagsmunahópur sem þyrði að taka til óspilltra málanna til þess að vekja athygli á margs kyns málum sem til úrbóta horfðu. Kjarnyrt umræða hreyfði e.t.v. við einhverjum.
Íslensk stjórnvöld láta víða reka á reiðanum í mörgum efnum. Lítill skilningur virðist vera á þeirri staðreynd að með aldrinum eykst hlutfall blindra jafnt og þétt og þessi hópur vill fá aðgang að lífsgæðum eins og lestri dagblaða og bóka auk tölvubúnaðar sem hefur verið undirstaða starfs og tómstunda síðustu áratugi.
Þegar Gunnar Thoroddsen tók að missa sjón dreymdi mig um að hann lifði nægilega lengi til þess að verða öflugur talsmaður þessa hóps. En skaparinn bauð honum til sín áður en til þess kom.
Ef einhver les þennan pistil óska ég honum gleði og gæfu á nýju ári. Athugasemdir og tillögur eru vel þegnar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband