Skerðingar örorkulífeyris lífeyrissjóðanna

Undanfarnar tæpar tvær vikur hef ég verið á ferðalagi ásamt fjölskyldunni og ekki fylgst grannt með fjölmiðlum. Þó fór ekki hjá því að sumt bærist mér að eyrum, enda tengdist ég a.m.k. einu máli, sem fjallað var um í fjölmiðlum.

Annað mál, sem ég varð var við, voru skerðingar lífeyrissjóðanna á örorkulífeyri. Þessi ósköp byrjuðu í fyrra og tók Öryrkjabandalagið allfast á því máli. Var haldinn fundur með forráðamönnum lífeyrissjóðanna og Garðar Sverrisson, fyrrum formaður bandalagsins, fenginn til liðs við okkur, enda er hann þessum málum kunnugastur.

Þegar Halldór Ásgrímsson tók við formennsku Framsóknarflokksins fyrir rúmum áratug hélt hann snjalla ræðu. Þar kom m.a. fram að stjórnvöld stærðu sig af því lífeyrissjóðakerfi sem Íslendingar byggju við og myndi smám saman létta á elli- og örorkuþætti almannatrygginganna sem gerði það að verkum að hagur þeirra, sem hefðu ekki áunnið sér réttindi í lífeyrissjóðum, myndi batna vegna vaxandi getu almannatryggingakerfisins að sinna þessum hópi. Svona skildi ég a.m.k. ræðuna og ýmsir fleiri. Svo virðist sem sumum hafi virst þetta tálsýn?

Nú hefur öryrkjum fjölgað talsvert að undanförnu og hefur það lent misjafnlega á hinum ýmsu lífeyrissjóðum. Meðalaldur þjóðarinnar hefur einnig hækkað og hefur það aðallega valdið ákveðnum vandræðum.

Flestir, sem fá einhvern lífeyri greiddan úr lífeyrissjóðum, eru einnig með lífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins. Þeir eru tiltölulega fáir sem njóta það hárra eftirlauna eða lífeyrisgreiðslna að allur lífeyrir frá TR skerðist. Þeir öryrkjar, sem fara einna verst út úr skerðingum lífeyrissjóðanna um þessar mundir, fá lágar greiðslur úr lífeyrissjóðum en hafa notið hækkana frá Tryggingastofnun ríkisins. Á fundi Öryrkjabandalags Íslands sem haldinn var með forsvarsmönnum lífeyrissjóðanna 9. ágúst síðastliðinn var bent á að óeðlilegt yrði að telja að eðlilegar hækkanir tryggingabóta kæmu niður á lífeyri frá sjóðunum.

Öryrkjabandalag Íslands virðist hafa verið afar vanbúið þeirri umræðu sem nú dynur yfir þjóðfélagið og fréttamenn virðast hafa haft einstakt lag á að kynna sér illa þær ástæður sem eru rót núverandi vanda. En hitt stendur eftir að skerðingaárátta íslenska almannatryggingakerfisins, sem sumir segja að rekja megi til aðila vinnumarkaðarins, heldur öryrkjum í fátæktargildru og enginn virðist hafa raunverulegan áhuga á að losa þá úr henni.

Knýjandi nauðsyn ber til að vitræn umræða fari fram um þessi mál og að henni þurfa að koma fulltrúar lífeyrissjóðanna, stjórnvalda og ekki síst lífeyrisþega. Án þátttöku hinna síðast nefndu verður enginn árangur.

Ekkert um okkur án okkar!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband