Unaðslegir tónleikar kínverskra listamanna

Í gærkvöld sóttum við hjónin tónleika Þjóðlagasveitar Söngleikjastofnunar Wuhan-borgar, vinaborgar Kópavogs, sem haldnir voru í Salnum.

Tónleikarnir voru um flest hinir ágætustu. Nokkuð var þar af gamalkunnum verkum, svo sem Máninn speglast í tveimur lindum (einnig þýtt: Máninn speglast í tjörninni) eftir Hua Yanchun og fleira gott sem hér hefur heyrst á tónleikum áður. Mörg verkanna voru frá því um og eftir miðja síðustu öld en þó nokkur ný verk voru flutt.

Það var ánægjulegt að heyra dans Yaomanna flutt hér í fyrsta sinn á tónleikum. Ég hefði kosið að hljómsveitarútsetning verksins hefði verið flutt.

Í hljómsveitinni eru 14 hljóðfæraleikarar og 4 söngvarar. Er þetta sennilega fjölmennasti flokkur tónlistarmanna sem komið hefur hingað frá Kína. Tókst hljómsveitin á við nokkrar hljómsveitarútsetningar sem eru í raun ætlaðar stærri hljómsveitum, en allt gekk þetta vel.

Áheyrendur virtust verða einna hrifnastir af íslensku lögunum, en þau voru Á Sprengisandi eftir Sigvalda Kaldalóns, Litla flugan og Dagný eftir Sigfús Halldórsson. Það átti vel við því að Sigfús var heiðursborgari Kópavogsbæjar sem bráðum hlýtur að breytast í Kópavogsborg. Gunnar Birgisson hlýtur að sjá til þess.

Að lokum: Unnendur kínverskrar tónlistar auk þeirra sem unna góðri tónlist, eru hvattir til að láta ekki þessa tónleika kínversku hljómsveitarinnar fara framhjá sér.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband