Umræðan um Mao Zedong

Sverrir Jakobsson birtir athyglisverða gagnrýni um bók Jung Chang um Mao í Morgunblaðinu í dag. Þar fer hann ítarlega ofan í saumana á meintri sagnfræði Jung chang og eiginmanns hennar og vara hreinlega við því að bókin sé tekin sem marktæk heimild um Mao formann.

Slík gagnrýni á bókina kom einnig fram á málþinginu um tímabil Maos sem haldið var í Háskóla Íslands 11. nóvember í fyrra og töldu fræðimenn bókina bæta litlu við skilning manna á Mao. Sverrir telur höfundana jafnvel ýta undir ranghugmyndir.

Ég hef áður bent á að bók þessi er skrifuð vegna haturs Jung Chang á Mao Zedong enda lýsti hún því yfir þegar hún kom hingað til lands í fyrsta sinn að hún ætlaði sé að skrifa ævisögu Maos og sýna fram á að hann hefði verið illmenni.

Ég hitti Wang Zhen, (1908-1993) í tvígang, einn virtasta herforingja Maos, vin og samstarfsmann til margra ára. Mao treysti honum flestum mönnum betur og Wang Zhen var einn af virtustu leiðtogum Kína á sínum tíma. Síðar greini ég e.t.v. frá fundi okkar árið 1977 en í dag ætla ég að segja frá viðræðum okkar árið 1981. Auk mín voru viðstaddir þeir Friðrik Páll Jónsson, fréttamaður, Kristján Guðlaugsson, núverandi blaðamaður, Kristján Jónsson, fyrrum forstjóri og Magnús Karel Hannesson, fyrrum borgarstjóri á Eyrarbakka.

Wang Zhen svaraði spurningum okkar á fundinum og voru svör hans bæði löng og ítarleg. Á þeim tíma, apríl 1981, hafði blossað upp gagnrýni á Mao Zedong. Sagt var að hann hefði verið valdasjúkur, óráðþæginn, uppstökkur og jafnvel illgjarn. Þá var einnig mikið gert úr mistökum hans vegna Stóra stökksins og þeirrar hungursneyðar sem fylgdi í kjölfarið. Sumir bentu þó á að Deng Xiaoping hefði átt nokkurn þátt í herferð gegn menntamönnum rétt eftir miðjan 6. áratuginn og var umræðan í Kína allfjörug um þetta leyti. Ég útvegaði Friðriki Páli viðmælanda sem lýsti þessari gagnrýni allítarlega. Fimm árum síðar var viðmælandinn dálítið stoltur af því að hafa þorað að gera þetta. En víkjum nú að samtalinu við Wang Zhen.

Wang var spurður m.a. um ábyrgð Maos á stóra stökkinu og þær fullyrðingar aðhann hefði verið óráðþæginn valdasjúklingur.

Hann upphof langa ræðu um pólitískt ástand í landinu og þær fórnir sem Kínverjar hefðu orðið að færa til þess að koma á sósíalisma. Taldi hann að borgarastyrjöldin hefði kostað a.m.k. 40 milljónir mannslífa.

Wang Zhen taldi að Mao hefði búð við það ástand að menn báru takmarkalausa virðingu fyrir honum og sögðu ekki alltaf sannleikann. Þegar efnahagsmál bar á góma sagði Mao eitt sinn við hann:

Þið ætlist til þess að ég taki ákvarðanir um efnahagsmál og komi með hugmyndir. Ég er ekki hagfræðingur og hef ekki vit á efnahagsmálum. Til hvers eru hagfræðingar og aðrir sérfræðingar?

Enda fór sem fór.

Í Kína gagnrýna menn nú stjórnarár Maos með réttu. En flestir segja að ekki sé hægt að ásaka einn mann fyrir það sem miður fór heldur beri hópur fólks ábyrgð á því. Þar á meðal er Deng Xiaoping.

Mér hefur stundum orðið hugsað til þessa samtals þegar mér hefur þótt óhróðurinn keyra um þverbak. Sanngjörn afstaða fæst aldrei þegar menn láta stjórnast af blindu hatri.

Ég ráðlegg fólki að lesa ævisögu Dalai Lama. Hann birtir aðra mynd af Mao en Jung Chang. Reyndar sagði hann eitt sinn í viðtali að ástæða þess að svona illa fór fyrir sér og Tíbetum sem studdu hann hafi m.a. verið sú að embættismenn ríkisstjórnarinnar fylgdu ekki fyrirmælum.

Ég tek undir orð Geirs Sigurðssonar og segi: Lengi lifi umræðan um Mao formann!

Og frá sjálfum mér:

Lengi lifi Hugsun Maos Formanns!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband