Einhverjir fjölmennustu einsöngstónleikar Íslandssögunnar

Áðan sóttum við Elín einhverja fjölmennustu einsöngstónleika Íslandssögunnar ef ekki þá fjölmennustu frá upphafi alda. Til þeirra efndu Hörður Áskelsson, orgelleikari og Jón Þorsteinsson, tenorsöngvari og Ólafsfirðingur. Fluttu þeir trúarlega tónlist, einkum íslenska sálma við ýmis lög sem er að finna á hljómdiski þeirra.

Hallgrímskirkja var þétt setin áheyrendum. Við sátum á næstfremsta bekk en Jón stóð aftast í kirkjunni við hljómborð orgelsins. Rómur hans barst ótrúlega vel fram eftir kirkjuskipinu og Hörður sá til þess að orgelið kæfði ekki raust Jóns. Flutningur þeirra var einstaklega vel samstilltur.

Á meðan ég hlýddi tónlistinni liðu mér fyrir hugskotssjónir ýmsar myndir frá ánægjulegum kynnum okkar Jóns, eins og þegar við tvíburarnir og Jón fórum galandi eftir allri Heimaey á sumarbjartri nótt árið 1968 og sungum við raust ólafsfirskan leir sem Jón hafði kennt okkur og ég gert lag við:

Heilsa ég þér Drottning kær,

þú hampa munt mér oft á spretti, spretti.

Lífið löngum við oss hlær,

ljúfa, blíða skepna, skepna.

Heilsa ég þér Laugi kær,

ég hampa mun þér oft á spretti, spretti.

Lífið löngum við oss hlær

þegar þú í þig landadropa slettir, slettir.

Jón hitti ég fyrst norður á Ólafsfirði í júlí 1967. Um haustið var ég fyrir sunnan að skrifa námsefni á blindraletur og kom Jón til Reykjavíkur. Við fórum saman á tónleika.

Síðan urðu samskiptin allmikil næstu árin. En síðustu tvo áratugi hafa þau verið allt of stopul.

Það kom mér ekki á óvart að Jón skyldi næstum fylla Hallgrímskirkju. Hann þekkir a.m.k. annan hvern Íslending, engum er í nöp við hann, mörgum þykir vænt um hann og hann er góður listamaður. Áheyrendum gekk enda seint að komast út úr kirkjunni því að hver einasti gestur þakkaði Jóni fyrir frábæra tónleika með handabandi, kossi, faðmlögum eð öllu þessu þrennu.

Þá spillti ekki að einn fremsti orgelleikari vorra tíma hér á landi skyldi ljá honum undirleik sinn. Þáttur Harðar Áskelssonar verður seint fullþakkaður.

Hreinasta unun var að njóta tónleika þessara þroskuðu listamanna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband