Ósigur almennings

Um daginn hækkaði Seðlabankinn stýrivextina og allir sögðust hafa búist við því.

Í kjölfarið hækkuðu bankarnir vexti m.a. af húsnæðislánum og flestir töldu það vart seinna vænna.

Kaupþing ákvað að ganga lengra og heimila fólki ekki að taka yfir gömul lán á gömlum kjörum.

Þegar bankarnir geystust inn á húsnæðismarkaðnn haustið 2004 vöruðu ýmsir við því að húsnæðisver myndi hækka í kjölfarið. Ég man ekki betur en frjálshyggjupostular Sjálfstæðisflokksins hafi þá farið hamförum og skammast yfir hafta-afturhalds-þröngsýnisrausi þeirra sem höfðu áhyggjur.

Nú hefur Geir Haarde viðurkennt að of geyst var af stað farið. Ég hef stundum velt því fyrir mér hvort almenn hagstjórnarlögmál gildi um svo lítið hagkerfi sem hið íslenska. Mér hefur stundum sýnst hið sama vera upp á teningnum hjá Kínverjum og Íslendingum, þ.e. smásveiflur geta haft geigvænlegar afleiðingar.

Í athyglisverðu viðtali sem Sveinn Helgason átti við Steingrím Sigfússon á Morgunvaktinni í gær, nefndi Steingrímur hve vandasamt væri að vinda ofan af þeirri þróun sem nú hefur orðið og kallaði eftir tillögum stjórnvalda. En hvað á að gera? Steingrímur ræddi jafnframt þau takmörkuðu ráð sem Seðlabankinn hefur yfir að ráða og bar eiginlega blak af Davíð. En ég spyr aftur, hvað eigi að gera.

Áðan kom fram í fréttum útvarps að húsaleiga hlyti að hækka vegna hækkandi íbúðaverðs og vaxandi fjármagnskostnaðar. Einhver sagði að annaðhvort yrði fólk að auka tekjur sínar eða herða sultarólina.

Vegna óvarlegrar fjármálastjórnar misviturra ungmenna og afskiptaleysis stjórnmálamanna í skjóli meints athafnafrelsis hefur íslenska krónan í raun verið verðfelld. Hún hlýtur að falla.

Væri hugsanlegt að grípa til þeirra ráða að snarlækka stýrivextina, keyra niður lánavexti og beita um leið öðrum aðferðum til þess að draga úr útstreymi lánsfjár? Er það hægt? Væri það verri aðgerð en skefjalaus vaxtahækkun sem eykur verðbólguna og þennsluna í þjóðfélaginu? Þá kæmi sennilega í ljós að auðlegð sumra Íslendinga hryndi næstum til grunna og meira af auðnum er byggt á sandi en margur hyggur.

Spyr sá sem ekki veit.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband