Lóan er komin á Seltjarnarnes og hjólreiðafólk hættir lífi sínu í umferðinni

Þegar ég kom út í morgun voru nokkrir starrar þvaðrandi í nágrenninu. Allt í einu brast á með lóukvaki. Mér fannst þetta eðlilegt lóukvak og alls ekki eins og um eftirhermu starrans væri að ræða. Þar til annað kemur í ljós er ég því fyrsti Seltirningurinn sem heyrir í lóunni þetta árið.

Við drógum Orminn bláa úr hýði sínu og héldum áleiðis niður að höfn. Hjóluðum við framhjá nýja tónlistarhúsinu inn á göngustíginn sem verður samsíða Sæbrautinni. Á leið okkar urðu nokkrir vegfarendur og sumir þeirra skildu ekki að þeir þyrftu að víkja fyrir reiðhjóli. Einn þeirra beygði sig niður og eyddi alllöngum tíma við að slökkva í vindlingi og leit svo hæðnislega á okkur, en við námum staðar. Til þess að ýta ekki undir fordóma gegn útlendingum minnist ég ekki á að maðurinn mælti á slavneska tungu við félaga sína.

Við héldum í áttina að safni Sigurjóns Ólafssonar. Þá kom í ljós að göngustígurinn náði lengra austur á bóginn og fórum við áleiðis en sveigðum niður Köllunarklettsveg og fórum skömmu síðar inn á göngustíginn aftur.

Næst var haldið yfir á Kringlumýrarbraut og hjólað meðfram henni. Það verður að segjast sem er að göngu- og hjólreiðastígarnir í Reykjavík hvetja ekki beinlínis til hjólreiða í borginni. Meðfram Kringlumýrarbrautinni er þvílíkt krákustígakraðak á gatnamótum að hið hálfa væri nóg. Beygjur eru víða krappar og vart færar tveggja manna hjólum.

Vinkona okkar var ekki heima og fengum við því ekki kaffi hjá henni heldur renndum okkur niður Hamrahlíð og Eskihlíð í átt að Norræna húsinu. Við ein gatnamótin þar sem ríkir biðskylda og Eskihlíðarumferðin á réttinn, ók leigubifreið næstu í veg fyrir okkur og var það ekki leigubílstjóranum að þakka að ekki hlutust meiðsl af. Þann heiður átti Elín Árnadóttir, stýrimaður á Orminum bláa. Það er merkilegt hvað margir bílstjórar bera litla virðingu fyrir reiðhjólum. Sumir halda því fram að fullorðnir karlmenn séu verstir. Gömul vinkona mín heldur því statt og stöðugt fram að konur séu verstu óvinir hjólreiðamanna í umferðinni. Svona slær hver því fram sem hann hefur reynslu af. Eitt er víst, í fyrsta sinn sem okkur hjónum var ógnað af bílstjóra þegar við vorum á ferð á reiðhjóli snemma morguns var það ung kona.

Sænsk rannsókn sýndi fram á að ástæða þess að bílstjórar brjóta á hjólreiðamönnum væri sú að bílstjórar óttast ekki að verða fyrir verulegu tjóni þótt reiðhjól lendi á þeim. Í morgun átti í hlut karlfauskur sem leit rembingslega á okkur hjónin. Verst að hafa ekki séð framan í hann því að ég nota leigubifreiðar talsvert og þarf að þakka honum fyrir að drepa okkur ekki eða stórslasa.

Í gær voru 2052 ár frá því að Caesar var myrtur. Ég er feginn að hafa fengið að lifa einum degi lengur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Vefslóðin í Sams Klúbb varð eftir

http://www.samsclub.com/shopping/navigate.do?dest=5&item=340802

Emil (IP-tala skráð) 17.3.2008 kl. 12:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband