Dagblað alþýðunnar og Tíbet

Í dag birtir Dagblað alþýðunnar tvær greinar um Tíbet og eru þær allharðorðar. Þær eru svo beinskeyttar og skemmtilega skrifaðar að þær minna mig stundum á skrif Jónasar frá Hriflu og jafnvel ónefndra, íslenskra ritstjóra sem enn eru á dögum. Út úr þeim skín viss pólitísk sannfæring og hræddur er ég um að ýmislegt, sem þar er sagt, sé sannleikanum samkvæmt.

Í annarri greininni er greint frá umfjöllun nokkurra vestrænna fjölmiðla um tíbet og atburðina þar að undanförnu og vitnað m.a. í kanadíska ferðamenn, sem áttu fótum fjör að launa þegar munkar hófu grjótkast að vegfarendum í Lhasa. Því er lýst hvernig bifhjólamaður, sem átti leið þar hjá, var dreginn af hjólinu og drepinn fyrir augunum á almenningi. Fleiri hafa því greinilega verið drepnir en andófsmenn. Furðar höfundurinn sig á að vestrænir fjömliðlar skuli kalla þetta friðsamleg mótmæli.

Greinarhöfundur víkur síðan í nokkrum vel völdum orðum að hræsni Vesturlanda þegar þau segjast bera virðingu fyrir mannréttindum í Tíbet og annars staðar í Kína og hæðist að orðum Nancy Pelosi sem hyggst senda óháða nefnd sérfræðinga til Tíbets til þess að rannsaka ásakanir um mannréttindabrot.

Hin greinin fjallar um áróður fylgismanna Dalai Lama og reyndar Dalai Lama sjálfan. Því er lýst hvernig hann talaði um sjálfstætt tíbet allt fram til ársins 1977 þegar Vesturlönd hófu að auka samskipti sín við Kína. Þá breyttust áherslur hans. Blaðið vitnar síðan til tveggja ummæla bræðra hans sem ræða um 20 ára sjálfsstjórn og síðan þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði Tíbets.

Greinarhöfundur segir einnig frá því að fylgismenn Dalai Lama geri kröfur um mun stærri landsvæði en hið eiginlega Tíbet og segir að þau nemi um fjórðungi alls Kína.

Grein þessari lýkur svo á tilvitnunum í nokkra kínverska sagnfræðinga sem greina frá hinu eiginlega upphafi Tíbetmálsins, en það er akið til innrásar Breta árið 1904. Umræður um sjálfstætt Tíbet segja þeir að hafi byrað um tveimur áratugum síðar. Þá er vitnað til fyrrum sendiherra Bandaríkjanna í Kína sem telur útilokað fyrir Bandaríkin að samþykkja áætlanir Dalai Lama um sjálfstætt Tíbet því að engin þjóð hafi nokkru sinni viðurkennt sjálfstæði þess.

Breska ríkisútvarpið greindi frá því í morgun að nokkrum blaðamönnum hefði verið boðið til Tíbets til þess að sjá með eigin augum hvað gerst hefði. Ekki fylgdi fréttinni hvaðan þessir blaðamenn eru.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband