Ný heimasíða Blindrabókasafns Íslands - umsögn

Ég leit á nýja heimasíðu Blindrabókasafns Íslands sem er um margt vel gerð. Þar er því haldið fram að heimasíðan sé vottuð af Sjá. Það, hvernig fullyrðingin var sett fram, olli því að nokkur efi settist að mér. Ég hef komið að vel flestum vottunum Sjár og Öryrkjabandalags Íslands og þessi síða er ekki þar á meðal. Þá hef ég nú fengið staðfest hjá Sigrúnu Þorsteinsdóttur, einum fremsta aðgengisfræðingi heims, að Sjá ehf hafi hvergi komð nærri vottun síðunnar.

Það er sitthvað á heimasíðunni sem er ekki í samræmi við viðteknar hugmyndir um heimasíður sem teljast eiga að öllu leyti aðgengilegar og greinilegt að heimasíðan hefur ekki farið gegnum viðurkennda prófun. Þá efast ég um að nokkur blindur einstaklingur hafi haft hönd í bagga með gerð síðunnar. Mér finnst hún bera þess merki. Hér skulu nefnd nokkur atriði:

1. Ég leitaði lengi að skráningu á póstlista. Hann virðist ekki vera fyrir hendi.

2. Þegar farið er í leitarvél er beðið um innskráningu. Eftir að lykilorð hefur verið gefið upp virðist ekki nægja að slá á enter heldur verður að nota tab-lykil til þess að finna "leitarhnappinn".

3. Ekki dugði að fara úr leitarvélinni með hefðbundnum aðferðum heldur þurfti að rjúfa sambandið við heimasíðuna. Getur verið að gamla leitarvélin hafi verið færð inn í nýtt kerfi?

4. Ég hugðist ná í wordskjal með lista yfir nýjum bókum. Ekki virtist hægt að smella á þann tengil en hljóðskráin var í lagi.

5. Hvaða þýðingu hafa þessar upplýsingar á síðunni: "Þú ert hér."

Fleira gæti ég týnt til.

Á heimasíðunni er þess getið að hún sé mun sjónrænni en áður. Það er vel. En hvernig þjónar það lesblindu fólki?

Vonandi teljast þetta uppbyggilegar athugasemdir í samræmi það sem óskað er eftir á síðunni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband