Anna Kristinsdóttir verði næsti mannréttindastjóri

Áðan var send út fréttatilkynning frá skrifstofu borgarstjóra þess efnis að lagt verði til að Anna Kristinsdóttir verði ráðin mannréttindastjóri. Við Anna eigum það m.a. sameiginlegt að hafa bæði gengið úr Framsóknarflokknum.

Fréttatilkynningin fer hér á eftir en þar eru rækilega tíundaðir kostir Önnu. Einnig er þess getið að einungis 6 af rúmlega 20 umsækjendum hafi verið boðaðir í viðtal.

4. júlí 2008

Lagt til að Anna Kristinsdóttir verði ráðin mannréttindastjóri Reykjavíkurborgar

Að tillögu ráðgjafanefndar verður lagt til á næsta fundi borgarráðs að Anna Kristinsdóttir, stjórnmálafræðingur og fyrrverandi borgarfulltrúi, verði ráðin mannréttindastjóri Reykjavíkurborgar. Alls sóttu 23 einstaklingar um embættið. Ráðgjafanefnd um ráðninguna boðaði sex af umsækjendunum í viðtöl. Það er samdóma álit nefndarinnar sem fór yfir umsóknir og tók viðtölin að Anna Kristinsdóttir fullnægi best þeim kröfum sem gerðar eru samkvæmt auglýsingu um starf mannréttindastjóra.

Anna hefur aflað sér víðtækrar reynslu og þekkingar á sviði jafnréttis- og mannréttindamála, bæði sem borgarfulltrúi í Reykjavík og sem þátttakandi í frjálsum félagasamtökum. Hún sat í jafnréttisnefnd Reykjavíkurborgar árin 1998 – 2002, í Jafnréttisráði frá 2004 – 2007 og í Svæðisráði málefna fatlaðra í Reykjavík frá 2003.

Anna hefur á undanförnum árum starfað með frjálsum félagasamtökum þar sem mannréttindi hafa skipað stóran sess, meðal annars verið í Landsstjórn/Framkvæmdaráði Þroskahjálpar frá 2001 og formaður foreldrasamtaka fatlaðra frá 2001-2004.

Hún á að baki stjórnunarreynslu, meðal annars sem skrifstofustjóri. Hún stýrði og var formaður Íþrótta- og tómstundaráðs árin 2002 – 2006, formaður Framkvæmdaráðs frá 2005 – 2006 og formaður hinna ýmsu nefnda á vegum Reykjavíkurborgar svo sem Bláfjallanefndar, Þjóðhátíðarnefndar og Afreksmannasjóðs Reykjavíkur.

Eftir að hún lauk störfum sem borgarfulltrúi, tók hún að sér verkefnastjórn Alþjóðaleika ungmenna árin 2006 – 2007. Hún hefur auk þess gegnt fjölda trúnaðarstarfa, svo sem í Áfengis- og vímuvarnarráði frá 2004, í stjórn Félagsbústaða 2006 – 2007, í landsstjórn Neytendasamtakanna frá 2002 – 2004, í stjórn Heimilis og skóla frá 2006 – 2008, í stjórn Evrópusamtakanna frá 2007 og verið formaður íbúasamtaka Bústaðahverfis frá 2007.

Anna lauk BA - gráðu í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands árið 2006. Hún vinnur nú að lokaritgerð í meistaranámi í opinberri stjórnsýslu frá HÍ.

Maki Önnu er Gunnar Örn Harðarson, framkvæmdastjóri, og eiga þau þrjú börn.

Frekari upplýsingar veitir Anna Kristinsdóttir í síma 861 2705.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband