Rjómaísfíkn

Margir Vesturlandabúar eru haldnir þeirri firru að það geti verið svalandi að borða rjómaís á heitum sumardegi. Ég fór eitt sinn flatt á því.

Árið 1981 kom ég við á Möltu á siglingu minni um Miðjarðarhafið. Héldum við að skoða gamla höfuðborg eyjanna, Medínu. Fyrir utan borgarhliðið var ungur maður sem bauð rjómaís til sölu.

Þar sem ég er mikill áhugamaður um ís og tók um þetta leyti þátt í afar athyglisverðri alþjóðarannsókn á ísgæðum, keypti ég mér ís og át hann á svipstundu eins og ég var vanur.

Ég gætti þess ekki að hitinn var 38 stig og kælingin mikil. Ofkólnaði því heilinn um stundarsakir og mér lá við öngviti. Varð ég að styðja mig við borgarmúrinn á meðan ég barðist við að falla í ómegin.

Mér hefur löngum þótt góður rjómaís og margar minningar eru bundnar við sælustundir þegar ég ásamt Emil Bóassyni hesthúsaði eins lítra skammti af ís. Reyndist okkur það létt verk. Mest komumst við upp í tvo lítra hvor einn daginn, en ekki meira um það.

Einu sinni varð slíkt át með óvæntum hætti:

Dag nokkurn í desember árið 1985 hafði okkur félögunum, Emil og Ragnari Baldurssyni, verið boðið á kvikmyndasýningu. Skemmtum við okkur forkunnar vel og ákváðum að halda upp á það með því að fá okkur ís.

Héldum við í Ísbúð Vesturbæjar og keyptum okkur sinn lítrann hver af rjómaís. Bað ég um heita súkkulaðisósu út á ísinn og varð stúlkan, sem afgreiddi okkur, þrumulostin og spurði hvort ég ætlaði að borða ísinn úr ílátinu. Svaraði ég því játandi og báðum við síðan allir þrír um skeiðar.

Veðri var þannig háttað þennan dag að vindur var hvass af norðvestri og frost. Þegar við gengum út úr ísbúðinni skipti engum togum að súkkulaðisósan fauk yfir og um mig allan. Varð af því ærinn sóðaskapur.

Ég gerði ísnum góð skil og fór síðan heim. Varð ég að fara í bað og gekk heldur illa að þvo súkkulaðisósuklístrið úr hárinu.

Fór ég síðan í hrein föt innst sem yst.

Ég hef sjaldan borðað heita súkkulaðisósu síðan enda hef ég vart heilsu til þess.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll

Heitir ekki gamla höfuðborgin á Möltu VALETTA ?

Björn

Björn Axesson (IP-tala skráð) 12.8.2008 kl. 17:52

2 Smámynd: Arnþór Helgason

Þegar flett er upp heimildum um Möltu er borgarinnar Mdina eða Medina sérstaklega getið. Hún er umkringd háum múr og muni ég það rétt tjáði leiðsögumaðurinn sem fylgdi okkur að borgin hefði eitt sinn verið höfuðborg.

Arnþór Helgason, 13.8.2008 kl. 22:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband