Guðmundur Magnússon og aðgengi að upplýsingum

Í dag hringdi ég til Guðmundar Magnússonar, blaðamanns, rithöfundar og sagnfræðings. Spurði ég hann um tiltekið atriði sem tengist máli sem hann hefur rannsakað. Ekki hafði hann rekist á það sem ég leitaði að en bauðst til að fletta því upp einhvers staðar eins og hann orðaði það.

Ég velti fyrir mér hvern ég gæti beðið að leita að upplýsingum um mál þetta í tímaritum hér á landi. Eins og menn vita hafa Morgunblaðið, Þjóðviljinn, Dagur og ýmis tímarit verið skráð hjá Landsbókasafni Íslands þannig að hægt er að leita eftir tilteknum orðum og birtast þá upplýsingar um hvar þau er að finna. Gallinn er hins vegar sá að ekki er gert ráð fyrir að hægt sé að lesa greinarnar á vefnum með skjálesurum. Því ræður sjálfsagt nauðsyn þess að þjappa efninu saman í jpg-skjöl eða eitthvað þess háttar.

Jæja, þar sem ég velti þessu fyrir mér hringdi síminn og Guðmundur var með alveg nýjar upplýsingar sem gerbreyttu stöðunni.

Verð ég honum ævinlega þakklátur fyrir aðstoðina sem fólst einmitt í því að hann fletti upp í Morgunblaðinu, Þjóðviljanum og fleiri blöðum og fann það sem við vissum hvorugur um en höfðum þó leitt líkur að með hyggjuviti okkar og þekkingu. En líkur eruekki hið sama og staðreyndir.

Það fennir ótrúlega fljótt yfir ýmislegt í menningu okkar Íslendinga. Spyrjið því ömmur ykkar og afa hvenær þau fengu fyrst tómata, brögðuðu banana, kíví, kalkún, Prins Póló, sáu fyrst ferðaútvarpstæki, fengu fyrsta segulbandstækið, fyrstu tölvuna o.s.frv. Því meira sem við spyrjum þeim mun fróðari verðum við. Ég minnist þess oft þegar þeir ræddu eitt sinn saman, faðir minn og séra Þorsteinn Lúther Jónsson. Sagðist séra Þorsteinn oft rita hjá sér ýmislegt smálegt um tilurð þessa og hins.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband