Er gamla Rússagrýlan komin á stjá í ríkissjónvarpinu?

Frásögn sjónvarpsins um að 40 ár væru liðin frá innnrásinni í Tékkóslóvakíu var fréttamaninum til skammar nema sjónvarpið gerbreyti orðalagi sínu.

Í fréttinni var talað um Sovétríkin og leppríki þeirra. Af hverju er aldrei talað um Bandaríkjamenn og leppríki þeirra í Írak, Afghanistan og víðar þar sem Bandaríkjamenn hafa troðið öðrum um tær? Hverjir voru leppar hverra þegar hin staðföstu ríki réðust á Írak? Og getur verið að Bandaríkjamenn séu síðan leppar Ísraelsmanna við óhæfuverk þeirra í Palestínu eða ætla þeir að nota Ísraelsríki sem lepp sinn þegar ráðast þarf á Írak?

Getur sjónvarpið þá ekki tekið upp gamla kommúnistaorðfærið og talað um leppa heimsvaldasinna?

Í einfeldni minni hélt ég að menn hefðu lagt af jafnheimskulegar fréttaskýringar og þá sem sjónvarpið bauð landslýð.

Það er gott að vita að það eru ekki bandamenn Íslendinga sem ætla að skemmta sér við loftferðaræfingar í lofthelginni heldur leppar bandarískra heimsvaldasinna. Og áður en ég fer að skrifa eins og versti afturhaldsseggur og ausa úr mér öllum þeim gífuryrðum og ónotum sem menn kunnu á 7. og 8. áratugnum er best að ég hætti. Það er nóg að sjónvarpið verði sér til skammar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Voru þá austantjaldsríkin ekki leppríki Sovétríkjanna, Arnþór? Þú getur reynt að finna eitthvað, sem kallast hafi mátt leppríki Bandaríkjanna á þeim sama tíma, en það átti ekki við um nein Evrópuríki. Ólíkt var því farið um Austur-Þýzkaland, Ungverjaland, Tékkó-Slóvakíu og Búlgaríu og um tíma Rúmeníu, en Tito í Júgóslavíu tókst þó að halda miklu sjálfstæði, og Albanía fór (m.a. vegna fjarlægðar) eigin götur, en hefði sennilega ekki komizt upp með það nema af því að þar var iðkaður enn svæsnari sósíalismi en í hinum löndunum. Ef og þegar þessi ríki vildu hætta að vera leppríki, áttu þau innrás yfir höfði sér (1956, 1968).

Frjálsar kosningar hafa farið fram í bæði Írak og Afganistan eftir innrásirnar, og Bandaríkin voru ekki í kjöri.

En Tékkó-Slóvakíu-greinin þín var prýðileg. 

Jón Valur Jensson, 22.8.2008 kl. 03:13

2 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Hver sér hlutina sínum augum.  Ég er alveg sammála þér, Arnþór, að hér er á ferð gamalt, hallærislegt orðaval.  Þetta sýnir bara enn einu sinni, að það gilda einar reglur fyrir Vesturlönd og aðrar fyrir þá sem teljast andstæðingar Vesturlands.  Þetta er sérlega hallærislegt, þar sem Ísland var eitt af fáum löndum í heiminum sem taldist vinaþjóð landanna í báðum blokkum.

Marinó G. Njálsson, 22.8.2008 kl. 09:20

3 Smámynd: Jón Valur Jensson

Vinaþjóð þjóðanna, ekki stjórnvalda þar, meðan harðvítugur kúgunarkommúnismi ríkti þar, Marinó. Það er ekkert tilefni til að segja tal um leppríki á þeim tíma tákna, að með því sé verið að gera lítið úr þjóðunum í Ungverjalandi, Tékkó-Slóvakíu o.s.frv. Valdataka kommúnista í þessum löndum var hörmungarsaga fyrir þjóðirnar, einstaklinga og samtök og lýðræðisvonir manna, ólíkt því sem gerðist á sama tíma vestan járntjaldsins, sem fallið hafði milli austurs og vesturs, eins og Churchill komst réttilega að orði (eða viltu kannski vefengja það líka, Marinó?).

Jón Valur Jensson, 22.8.2008 kl. 10:16

4 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Jón Valur, fyrir margar af þessum þjóðum færði fall kommúnismans þeim umtalsverðar þrengingar og sér t.d. ekki fyrir endann á þeim í fyrrum Austur-Þýskalandi.

Annars ætla ég ekki að orðskakast við þig, enda veit ég að það er vita vonlaust.  Ef fólk er ekki sammála þér, þá hefur það fengið á sig alls konar blammeringar, sem koma umræðuefninu ekkert við.  Þar með bið ég þig um að hafa þína skoðun á minni skoðun fyrir þig.  Ég á hér í rökræðum við Arnþór en ekki þig.

Marinó

Marinó G. Njálsson, 22.8.2008 kl. 11:56

5 Smámynd: Arnþór Helgason

Ég fer ekki ofan af því að talsvert hefur borið á kaldastríðsorðalagi að undanförnu og þá er eins og fjölmiðlar gæti sín ekki ævinlega. Til dæmis er lítið fjallað um orsakir stríðsins milli Rússa og Grúsíumanna og ábyrgð grúsísku stjórnarinnar á því sem þar gerðist.

Þá finnst mér skjóta skökku við að sjá ekki fleir fréttaskýringar en raun ber vitni á því hvers vegna Rússar notuðu átylluna til harkalegra árása á Grúsíu, já, of harkalegra og grimmdarlegra. Ef menn líta á málin má m.a. sjá hversu snilldarlega Bandaríkin haga sér um þessar mundir. Rússneski björninn hefur eiginlega verið umkringdur. Ætli næsta andsvar þeirra verði ekki að koma upp eldflaugum á Kúbu. Þá væri verr af stað farið en heima setið. En græðgi bandrískra heisvaldasinna og heimslögreglunnar ríður ekki við einteyming.

Hið sama á við um fleiri ríki en rússland. Um þau er fjallað á óvægilegan og hlutdrægan hátt. Í þessu bloggi hyggst ég ekki draga fram ákveðin dæmi en bið menn að skoða orðalag í íslenskum fjölmiðlum gagnvart Kínverjum og Rússum annars vegar og Bandaríkjamönnum og leppum hins vegar. Þótt vissulega bóli á gagnrýni í garð þeirra síðastnefndu fer því víðs fjarri að orðaleppar séu notaðir um þá eins og tíðkast um þær þjóðir sem sumir blaða- og fréttamenn kjósa sér.

Arnþór Helgason, 22.8.2008 kl. 21:15

6 Smámynd: Óskar Þorkelsson

Þarfur pistill Arnór

Ég er sammála Marinó í hans málflutningi.  Ég vil benda þér á Laissez að í austur þýskalandi er á mörgum stöðum 25 % atvinnuleysi, 15 % er algengt.  Slíkt var það ekki undir járnhæl kommunismans.. en hvað er verið að fást um það á svona flottum degi þegar ísland er stórast í heimi.  

Óskar Þorkelsson, 22.8.2008 kl. 21:17

7 Smámynd: Óskar Þorkelsson

orðavalið Grúsía.. hvaða orðskrípi er þetta og hvaðan kemur það ef ekki beint frá rússlandi.. landið heitir Georgía og hefur heitið það síðan snemma á miðöldum.. 

Óskar Þorkelsson, 22.8.2008 kl. 21:19

8 Smámynd: Óskar Þorkelsson

enda sagði ég 15 % væri algengt í austur þýskalandi.. 25 % þekkist. fer bara eftir hvaða svæði þú ert að tala um. 

Óskar Þorkelsson, 22.8.2008 kl. 21:49

9 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Laissez-Faire, það hafa verið gerðar heimildarmyndir um stöðu mála í mörgum þessara landa, sem sýna að hagur mjög margra íbúa á þessum svæðum versnaði verulega eftir fall austurblokkarinnar.  Þrengingar sem voru svo svakalegar að atvinnuleysi mældist í tugum prósenta og fólk sá sér þann kost vænstan að flýja land til að leita að betri lífskjörum, sbr. Pólverjana sem fluttu hingað fyrir 12 - 15 árum.  Það er fyrst um þessar mundir sem efnahagur landa eins og Póllands, Ungverjaland og Búlgaríu er að jafna sig og það er mikið til ESB-peningum að þakka.  Rúmenía á ennþá langt í land.  Júgóslavía er í sárum.  Tékkóslóvakía var klofin í tvennt til að uppfylla pólitískar ambitionir eins manns.  Sitthvoru meginn við landamæri Tékklands og Slóvakíu búa foreldrar og börn, afar og ömmur. Nútíma mansal er blómlegur atvinnuvegur í löndum fyrrum austurblokakr, þar sem konur eru hnepptar í ánauð kynlífsiðnaðarins. Heimilisleysi er að verða mikið vandamál í mörgum þessara landa.   Ef þú heldur að þetta séu framfarir, þá er það þitt mál, en ég kalla þetta afturför.

Eins og ég sagði, þá eru það ESB-peningar sem hefur bjargað mörgum þessara landa.  Þessi lönd hefðu ekki getað og geta ekki bjargað sér á eigin spýtur.  Eru ESB peningar eitthvað betri peningar en greiðslur frá Sovétríkjunum?  Eru þessi ríki sjálfstæðari í dag innan ESB en þau voru áður sem "leppríki" Sovétríkjanna?  Það getur vel verið að ESB haldi ríkjunum ekki í herkví, en ESB setur þeim alls konar skorður, pólitískar og efnahagslegar.

Ég er ekki að segja að valdatími Sovétríkjanna hafi fært þessum löndum sælu.  Langt því frá. En ríkið sá til þess á þessum tíma að allir hefðu lífviðurværi, húsnæði og visst öryggi.  Það fylgdi böggull skammrifi, en það gerir það líka í dag.

Ég kom til Austur-Þýskalands árið 1984 og sá með eigin augum þá kúgun sem átti sér stað þar.  Hún var ekki skemmtileg á að horfa.  En það er eitthvað sem fær margt af þessu fólki í dag samt til að horfa til baka með söknuði.  Ég þekki Ungverja sem fullyrða að ástandið hafi verið betra í tíð kommúnistastjórnarinnar. Getur verið að þetta fólk hafi annað verðmætamat en við og horfi því einfaldlega hlutina öðrum augum? 

Af hverju þurfum við, Vesturlandabúar, alltaf troða okkar verðmætamati, okkar stjórnarháttum upp á aðra og fullyrða að það sé þeim fyrir bestu?  Og í hverju felst þetta lýðræði sem við boðum svo stíft?  Kosningar á fjögurra ára fresti, þar sem við kjósum til valda fólk sem hagar sér eins og einræðisherrar næstu fjögur ár.  Sem tekur grundvallarákvarðanir um hagi okkar án þess að bera það undir okkur.  Sem fótum treður réttindi okkar ef þeim sýnist svo.  Sem setur lög sem takmarka eignarrétt okkar, skerðir mannréttindi okkar og íþyngja okkur fjárhagslega, allt í nafni lýðræðis og þingræðis, en er í reynd hvorugt.  Fyrirmyndarríki þessa lýðræðis eru Bandaríkin, sem eru komin nær 1984 George Orwell en heilbrigt getur talist.

Marinó G. Njálsson, 23.8.2008 kl. 00:57

10 Smámynd: Jón Valur Jensson

"Eru ESB peningar eitthvað betri peningar en greiðslur frá Sovétríkjunum?  Eru þessi ríki sjálfstæðari í dag innan ESB en þau voru áður sem "leppríki" Sovétríkjanna?" spyr Marinó. En (1) Sovétríkin gáfu þeim ekki peninga, heldur tóku þau drjúg verðmæti frá Austur-Þýzkalandi. (2) Já, þótt EBé sé slæmur kostur fyrir lönd eins og Ísland og Noreg og jafnvel fyrir verr stæð lönd líka, þegar fram líða stundir (þótt nú fái þessar þjóðir vel þegna styrki), þá var staða þeirra sem raunverulegra leppríkja undir Sovétríkjunum mun verri heldur en staða þeirra er nú, m.a. í mannréttindamálum, en í mörgu öðru líka.

Það er kapítalisminn, frjálst markaðskerfi og samkeppni, sem mun nýtast þessum þjóðum bezt til efnahagslegra framfara (en það tekur einungis tíma að bera ávöxt), og þetta var einmitt það sem hjálpaði Kínverjum að rísa upp úr örbirgð sinni í sósíalísku sameignarkerfi til miklu betri lífskjara á síðari árum.

Jón Valur Jensson, 23.8.2008 kl. 13:03

11 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Jón Valur, aftur setur þú þig á stall og álítur að allt sem kemur frá vestrinu sé betra en aðrir kostir.  Ég get ekki séð að kapitalisminn sé að gera heiminum svo gott í það heila.  Hann hefur stuðlað að örbirgð víða, aukið gapið milli ríkra og fátækra, virðir mannréttindi lítils, virðir að engu rétt fólks til eðlilegrar lífsframfærslu þar sem kapitalisminn snýst um að græða á kostnað náungans.  Í heimalandi kapitalismans, Bandaríkjunum, búa fleiri á götunni en í fátækustu löndum heims!  Þar missir fólk mjög oft heimilið sitt um leið og það missir vinnuna, vegna þess að vinnuveitandinn var leigjandi þess.  Þar búa hundruð þúsunda, ef ekki milljónir, í hjólhýsabyggðum sem vart getur talist boðlegt.  Þar býr helmingur þjóðarinnar við skerta heilbrigðisþjónustu vegna þess að það hefur ekki efni á henni.  Og frjálsa markaðskerfið sem hefur gert atlögu að fjöreggi íslensku þjóðarinnar, hefur hækkað matarverð upp úr öllu valdi á örfáum mánuðum og stuðlað þannig að hungursneyð í fjölmörgum löndum.  Og samkeppnin sem snýst m.a. um að riðja öllum hættum úr vegi eða hagræða verði á mörkuðum til að blóðmjólka viðskiptavinina.  Það eru til jákvæðar og neikvæðar hliðar á öllum málum.  Það eina sem þarf að gera er að leita.

Marinó G. Njálsson, 23.8.2008 kl. 13:39

12 Smámynd: Arnþór Helgason

Ég get ekki betur séð, Jón, en að þú hafir látið afvegaleiðast af pólitískum fordómum og vera kann að svo sé um fleiri.

Það velkjast sjálfsagt fáir í vafa um að stjórnar- og kúgunaraðferðir valdhafanna í Sovétríkjunum haf verið með því versta sem gerðist á síðustu öld. Það breytir þó ekki því að hitt risaveldið, Bandaríki Norður-Ameríku, hefur beitt og beitir miður skemmtilegri aðferðum.

Innrásin í Írak er prýðilegt dæmi um aðfarir sem áttu sér langan aðdraganda. Bandaríkin veittu Írökum leyfi til að ráðast inn í lítið furstadæmi við Persaflóa og það varð ástæðan til Flóabardagans árið 1991. Í kjölfarið fylgdi viðskiptabannið sem murkaði lífið úr fjölda Íraka. Af hverji beittu Íslendingar sér ekki í því máli sem vopnlaus, friðelskandi þjóð? Getur verið að þeir hafi verið leppríki Bandaríkjanna? Hvað voru þeir annað?

Bandaríska ríkisstjórnin óf lygavef til þess að réttlæta innrásina í Írak árið 2003. Hvað hefur fylgt í kjölfarið? Gereyðilegging innviða írakska samfélagsins, flótti, hungursneyð, örbirgð, ótti, kúgun og ofsóknir. Þetta fór jafnvel verr en svartsýnustu fræðimenn breskir og bandarískir héldu að það færi.

Hvers vegna hafa Bandaríkjamenn ekki tekið til í öðrum ríkjum þar sem einræðisstjórn hefur ríkt? Það skyldi þó ekki vera að olían skipti þar meira máli en lýðræðið?

Árið 1991 var ég á ráðstefnu samtakanna Rehabilitation International í Austur-Berlín. Fróðlegt var að koma þangað eftir fall múrsins og verða þess áskynja hversu eyðileg borgin var í raun og veru. Borgarstjóri Berlínar flutti þar afar athyglisverða ræðu. Hann ræddi m.a. um sameiningu Þýskalands og sagði að menn yrðu að taka þa besta úr báðum þjóðfélagskerfum til að byggja upp nýtt þýskaland.

Þú segir að kapítalisminn hafi bjargað kinverjum og hrundið þeim úr þeirri örbirgð sem þjóðin bjó við. Sú örbirgð átti sér ýmsar skýringar og sumar þeirra voru alþjóðlegs eðlis eins og vandræðin á Kúbu sem Bandaríkjamenn bera ekki sísta ábyrgð á. Því miður hafa Kínverjar lært ýmislegt af Bandaríkjamönnum til þess að hámarka gróðann. Eitt af því er eiginleg einkavæðing heilsugæslunnar með þeim afleiðingum að hún hefur hrunið víða á landsbyggðinni með skelfilegum afleiðinbum.

Ef menn vilja halda áfram þessari umræðu á þessu tiltekna bloggi legg ég til að hún verði með öðrum hætti en hingað til hefur verið. Hér standa menn gráir fyrir járnum og skiptast á skeytum. Ég held að réttara væri að læra af reynslunni eins og Mao formaður benti á og jafnframt af fjöldanum. Í þessum efnum eru dæmin sá fjöldi sem reiða ber sig á og þá þðýðir ekki að höggva í sama knérunn sí og æ.

O mundu, félagi góður, að dæma eigi svo að þú verðir eigi dæmdur.

Arnþór Helgason, 23.8.2008 kl. 17:10

13 Smámynd: Jón Valur Jensson

Ef einhverjir eru að dæma einstakling hér og setja sig á háan hest yfir hann, eru það Marinó og Arnþór, sýnist mér. Eitthvað á Kínavinurinn mikli erfitt með að viðurkenna yfirburði þess markaðsskipulags, sem fleytt hefur stórum hlutum kínversks samfélags frá fátækt til allmikillar velmegunar. Hnökrar á því kerfi, jafnvel öfgar, breyta ekki um aðalatriði þess máls (Arnþór nefndi heilsugæzluna; ég gæti bætt við slælegu eftirliti með sumum starfsháttum kapótalismans, eins og sýndi sig í jarðskjálftunum í Sichuan-héraði, þar sem fjöldi hruninna skóla og annarra húsa reyndist hafa verið ófullnægjandi frágangi verktaka og lélegum byggingarefnum; fleiri dæmi mætti nefna, en ég vil ekki ergja Arnþór með því).

Marinó lifir í einhverri forneskju og skrifar því:

"Ég get ekki séð að kapitalisminn sé að gera heiminum svo gott í það heila.  Hann hefur stuðlað að örbirgð víða, aukið gapið milli ríkra og fátækra, virðir mannréttindi lítils, virðir að engu rétt fólks til eðlilegrar lífsframfærslu þar sem kapitalisminn snýst um að græða á kostnað náungans."

En reynsla nágrannalanda Kína í nokkra áratugi: Japans, Suður-Kóreu, Singapúr,
Formósu og jafnvel Hong Kong, er allt önnur en Marinó vill vera láta. Kínastjórn mátti horfa á þessi ríki rjúka fram úr Miðríkinu mikla í efnahags- og tækniframförum og sækja fram á heimsmarkaðnum og stórbættum lífskjörum, og engu var það að þakka öðru en lögmálum hins frjálsa markaðskerfis.

Það er til lítils að segjast búa við sameignarskipulag og meint bræðralag, en glíma þar við eilífa stöðnun, framfaraleysi, biðraðir og skort á lífsnauðsynjum, fyrir utan allt andlega ófrelsið og kúgunina. Bandaríkin höfðu allan vinning fram yfir Sovétríkin og Rauða-Kína í þessu tilliti. En ef sumum þykir óþægilegt, að minnt sé á þær staðreyndir, þá er það einfaldlega þeirra mál.

Jón Valur Jensson, 23.8.2008 kl. 23:49

14 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Eins og venjulega kannt þú ekkert annað en að snúa út úr orðum fólks, Jón Valur.  Það er alveg sama hvað er sagt, þú nærð að misskilja allt.  Þegar ég var í kennslu hér í gamla daga, þá sagði ég við nemendur mína:  "Ef þið skiljið mig ekki, ekki misskilja mig."

Ég veit ekki hvaða þekkingu þú hefur á þessum löndum sem þú nefnir, en þau eru ekki dæmigerð fyrir kapitalisma, þar sem samfélagsmynd þeirra er byggð á samheldni fjölskyldunnar, þar sem börn sjá um foreldra sína í ellinni.  Þau eru því gjör ólík Bandaríkjunum, sem ég var að tala um.

Varðandi forneskjuna, þá er hún nú ekki eldri en svo, að þetta er að gerast út um allan heim í dag.  Fjölþjóðlegir auðhringar og stórfyrirtæki eru í nafni kapitalisma að mergsjúga vanþróuð lönd í svo ríku mæli að jafnvel Bandaríkjamenn skammast sín fyrir framkomu samlanda sinna.  Hvað er stríðið í Írak annað en tilraun kapitalista að komast yfir einar auðugustu olíulindir í heiminum?  Það er kjaftæði að þetta hafi verið gert í nafni lýðræðis.  Það þarf virkilegan einfelding til að trúa því.

Hvernig dettur þér í hug að það sé minni andleg kúgun á Vesturlöndum, en í Rússlandi?  Ef einhverjum dettur í hug að hafa skoðun sem er utan rammans, þá er sá hinn sami miskunnarlaust útskúfaður eða álitinn vanheill á geði.  Um þetta eru svo mörg dæmi og þarf ekki annað en að líta til Íraksmálsins.  Yfirmaður eftirlitssveitar Alþjóða kjarnorkumálastofnunarinnar, sem hafði eftirlit með "afvopnun" Íraka, var hunsaður og útskúfaður.  Bandaríkjamenn hættu ekki fyrr en hann var settur til hliðar.  Og fyrir hvað?  Hann var ekki sammála leyniþjónustu Bandaríkjanna og George Bush.  Hvað er þetta annað en kúgun?  Og hver hafði svo rétt fyrir sér?   Og varðandi andlega ófrelsið, þá er konu nauðgað á 20 sekúnda fresti í Bandaríkjunum.  Þessi tíðni er hvergi verri í heiminum.  Ef þetta er ekki sálarlegt og andlegt ófrelsi, þá veit ég ekki hvað.  (Vissulega veit ég lika, að þú túlkar andlegt ófrelsi sem trúarlegt ófrelsi, en mér vitanlega hefur hvergi í heiminum tekist að hefta þann sem rækir trú sína í einrúmi.)

Heimurinn er ekki svart-hvítur, þar sem allt er rétt sem annar aðilinn gerir og rangt sem hinn aðilinn gerir.  Í fyrsta lagi er hann í lit og í öðru lagi njóta öll lönd allra lita.  Það er forneskjuleg hugsun að álíta annað.

Ég hef hvergi sagt að ekkert hafi farið úrskeiðis í Sovétríkjunum eða Kína.  Þar hefur margt farið úrskeiðis í gegnum tíðina. Fjölmargt.  En hreinn kapitalismi er ekki meðalið og markaðshagkerfið og samkeppnin virðast ekki virka nema innan strangra ramma löggjafar og regluverks sem setur miklar skorður á þetta allt.  Slíkt regluverk er orðið svo umfangsmikið að menn eru farnir að tala um "ráðstjórn".  Kaldhæðnislegt, ekki satt?  Og samkeppnislög eru orðin svo ströng að þau minna á kunnulega frasa "allir menn skulu vera jafnir", en hann er jú kenndur við sósíalisma, en ekki kapitalisma. Kaldhæðnislegt, ekki satt?

Marinó G. Njálsson, 24.8.2008 kl. 01:19

15 Smámynd: Jón Valur Jensson

Haltu áfram einræðu þinni, Marinó, og reyndu að afsanna það hjá mér, sem ég aldrei hélt fram. Inntak orðsendingar minnar síðast var, að frjáls samkeppni og markaðsfrelsi hefðu yfirburði yfir sósíalískan áætlunarbúskap og ofstjórn og að þetta hafi sannazt í Asíulöndunum (svo að Kínverjar máttu öfundast út í það, unz þeir völdu sjálfir sömu leið!), en með því var ég ekki á neinn hátt að gera lítið úr samheldni fjölskyldna og samhjálp, þótt þér þókknist að rangtúlka orð mín í þá veru, auk þess að fara úr í aðra sálma sem koma efnahagskerfi landa ekkert við (og nenni ég ekki að eltast við skrif þín þar um).

Svo sannarlega er ég ekki málsvari skefjalauss frelsis, ekki heldur í markaðs- og álagningarmálum né í því sem varðar eftirlit ríkja og reglugerðir um vöndun framleiðsluvara – sem Bandaríkjamenn eru einmitt sterkir í, en Kínverjar veikir! En ég hef lært sitthvað um þig á þessari orðræðu – vissi satt að segja ekki, að þú væri jafn-forstokkaður sósíalisti og raun ber vitni.

Jón Valur Jensson, 24.8.2008 kl. 15:31

16 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Jón Valur, það er nú ekki hægt annað en að dást af ímyndunarafli þínu.  Það er alveg sama hvað er skrifað, þér tekst alltaf að koma með túlkanir sem eru eins fjarri innihaldinu og hægt er að hugsa sér.  Ég hef, svo dæmi sé tekið, hvergi látið í ljós pólitískar skoðanir mínar, en samt tekst þér að kalla mig forstokkaðan sósíalista. Pólitískar skoðanir mínar koma þessari umræðu nákvæmlega ekkert við.  Hún hófst á því að ég tók undir gagnrýni Arnþórs Helgasonar á að fáránlegt orðalag kaldastríðsáranna hafi verið notað í frétt um að 40 ár séu frá vorinu í Prag.

Ef þetta er einræða hjá mér, telst þetta þá líka einræða hjá þér?  Þú gerir ekki nokkra tilraun til að svara efnislega því sem ég segi.  Tekur út eitt atriði eða tvö og snýrð þeim á hvolf svo þú getir gert lítið úr málflutninginum.  Ég hef svo sem séð þetta áður frá þér og átti því ekki von á öðru.

Það eina sem ég er að benda á, er að það eru margar hliðar á öllum málum en einhverra hluta vegna er eingöngu fjallað í fjölmiðlum hér á landi og á Vesturlöndum um þá hlið sem er stjórnvöldum í Washington þóknanleg.  Menn gleypa allt of oft við matreiddum fréttum frá bandarískum fréttaveitum þar sem skortir allt sem heitir gagnrýni á innihaldið.  Jábræðra hugsanagangurinn er alls ráðandi.  Þetta kemur pólitískum skoðunum mínum ekkert við.  Mér bara býður við því að fjölmiðlafólk skuli falla í þá gryfju að taka við slíkum, mér liggur við að segja, ritstýrðum fréttum. 

Varðandi það efni sem Arnþór hóf umræðuna á, þá er það klárlega dæmi um vestrænar túlkanir á því sem gerðist í Austur-Evrópu.  Oftast er talað við bandaríska sérfræðinga, sem í mörgum tilfellum hafa aldrei stigið fæti á evrópska jörð, og aðra vestur-evrópska álitsgjafa.  Það er sjaldan eða aldrei gerð tilraun til að fá skoðanir heimamanna eða austur-evrópska sérfræðinga um málefni þessa tíma.  Hvað er það sem gerir bandaríska prófessora svona sérfróða um það sem gerðist í austurblokkinni?  Er það kannski það sama og gerði það að verkum að CIA var 100% viss um að Írakar ættu gereyðingavopn?  Eða ákvarðar að Íranar mega ekki auðga úran, þó hin og þessi lönd á Vesturlöndum megi það?  Eða heldur við viðskiptabanni á Kúbu hátt í 50 árum eftir að öll hætta sem stafaði af Kúbu er úr sögunni?  Það eru til nokkur góð og gild íslensk orð sem lýsa þessu: hroki, heimsvaldastefna, yfirgangur, stjórnsemi, sjálfumgleði. Og til að viðhalda þessu ástandi, þá er mjög líklegt að Bush-stjórnin hafi att Georgíumönnum út í hernað í Suður-Ossetíu, vegna þess að Bandaríkjamenn treysta repúlikönum betur en demókrötum á stríðstímum. Hvað er fyrirhuguð uppsetning eldflaugavarna í Póllandi og fleiri Austur-Evrópulöndum annað en tilraun til að skapa spennu?  Halda menn virkilega að Íran muni ráðast á Bandaríkin?  Ef Bandaríkjastjórn heldur þetta, þá eru Bandaríkin í meiri vanda en ég hélt.  Nei, þetta er allt pólitískur hráskinnaleikur sem hefur fyrst og fremst það markmið að tryggja að John McCain verði næsti forseti Bandaríkjanna. Ég vona innilega að bandarískir kjósendur sjái í gegnum þetta og bjargi heiminum frá því að repúblikanar verði áfram við völd í Hvítahúsinu.

Marinó G. Njálsson, 24.8.2008 kl. 21:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband