Kristján og Jóhanna, flýtið ykkur hægt!

Á fyrstu árum þessarar aldar reyndu stjórnvöld að þvinga fram flutning málefna fatlaðra til sveitarfélaganna. Vegna andstöðu Öryrkjabandalags Íslands hvarf Páll Pétursson frá því góðu heilli.

Einn af embættismönnum félagsmálaráðuneytisins hefur dreymt um tilfærslu málaflokksins og svo er um fleiri. En það er ekki hið sama að flytja málefni fatlaðra til sveitarfélaganna og grunnskólana. Að ýmsu þarf að hyggja og sumt er þannig vaxið að í okkar litla samfélagi er vafasamt að sveitarfélögin séu í stakk búin til þess að axla þá ábyrgð sem því fylgir. Þá verður vandséð hvernig á að veita heildstæða þjónustu og hafa heildarsýn yfir málaflokkinn.

Þegar fyrst var farið að ræða um flutning grunnskólans til sveitarfélaganna var Öryrkjabandalagið beðið um greinargerð. Var þar fjallað ítarlega um þær hættur sem gætu skapast af slíkum flutningi. Man ég ekki betur en þáverandi formaður Þroskahjálpar, Ásta Þorsteinsdóttir, væri með í að semja þessa greinargerð. Því miður verður að segja sem er að ýmsir hópar fatlaðra hafa farið verr út úr þeim flutningi en nokkurn mann grunaði. Þá hófst togstreitan um hver ætti að borga hvað og fötluð börn urðu víða hálfgerðar hornrekur í skólunum. Á fáum stöðum tókst sæmilega til. Reykjavík stendur sig til að mynda að engu leyti eða varla betur en illa í sumum atriðum og grípa varð til þess úrræðis að stofna sérstaka þekkingarmiðstöð um málefni blindra meðal annars vegna þess að Reykjavíkurborg sinnti þar ekki skyldum sínum. Það var að vísu heillaskref að hefja undirbúning þekkingarmiðstöðvarinnar og hefði þurft að vera komið á fyrir löngu. En tilflutningur skólans tafði fyrir því og hefur m.a. valdið því að fólk hefur flúið af landi á brott til þess að koma blindum börnum sínum í skóla.

Þá er einboðið að málefni Heyrnar- og talmeinastöðvar og Sjónstöðvar hljóti að verða á hendi ríkisins, en Sjónstöðin verður væntanlega hluti af nýju þekkingarmiðstöðinni. En sagan er þó ekki öll sögð.

Hvernig á að taka á hjálpartækjamálum fatlaðra og hver á að eiga tækin? Eiga sveitarfélögin að greiða fyrir þau eða hið opinbera? Nú er staðan sú að sveitarfélögin greiða fyrir hjálpartæki fatlaðra barna í skólum og deilur hafa sprottið eða álitamál um það hvort börnin geti flutt þau með sér á milli sveitarfélaga. Verður sett vistarband á fatlað fólk svo að það geti ekki flutt á milli sveitarfélaga með hjálpartækin sín?

Ég heyrði það iðulega hjá forystumönnum samtaka fatlaðra að þeim þótti hafa verið farið offari í flutningi málaflokksins á Norðurlöndum. Dæmi þekki ég bæði frá Svíþjóð, Finnlandi, Danmörku og Noregi þar sem fólk hefur hrakist á milli sveitarfélaga í leit að heppilegri þjónustu.

Íslendingar virðast eina ferðina enn ætla að elta frændur sína á Norðurlöndum löngu eftir að menn hafa áttað sig á ókostum flutninganna.

Áður en hægt verður að flytja málaflokkinn verður að gerbreyta lögum og viðhorfum þannig að jafn réttur verði tryggður. Og vel á minnst: Hvað varð um aðgengisvinnuna sem átti að tryggja fötluðu fólki jafnan aðgang að þjóðfélaginu? Dagaði hana hreinlega uppi?

Hvað segir Öryrkjabandalag Íslands?


mbl.is Nýr veruleiki sveitarfélaga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þið ættuð bara að vita alla spillinguna úti á landi í þessum litlu sveitarfélögum. og enginn lætur neitt í sér heyra fyrir hræðslu um eigin afkomu.

Og ég er ekki hissa á því. Þetta sem oft er í gangi er með ólíkindum. En það eru stórar ættir sem eiga heima á sama staðnum og hafa eiginlega öll ráð hinna í höndum sér. Og alltaf eru til siðblindir einstaklingar , og í sumum ættum eru þeir fleiri en góðu hófu gegnir.

Og ekki vildi ég eiga heima í þessum byggðum, sem öryrki, eða sá sem þyrfti að reyða sig á skilning sveitarstjórnarinnar, eða sveitastjórans.

Sigrún Jóna (IP-tala skráð) 24.8.2008 kl. 01:20

2 Smámynd: Ásgerður Jóna Flosadóttir

Sæll, og takk fyrir þennan góða pistil.  Ég er þér innilega sammála.

kkv.

Ásgerður Jóna Flosadóttir, 24.8.2008 kl. 10:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband