Harðfiskbitar með súkkulaðihúð

Eftirfarandi barst frá Emil Bóassyni í morgun og er þetta birt með leyfi hans.

"Las af mikilli ánægju greinarkornið um súkkulaði í mogga. Þykir rétt að fræða þig um að sumarið 1973 ákvað faðir minn að kanna hvort hægt væri að bæta við nýjungum í matargerð. Var það einkum hugað að harðfiski og nýlegum fiski grálúðu sem við höfðum þá reykt um nokkurt skeið.

Emil var við annan mann falið að annast tilraunir. Voru þær fremur einfaldar enda rannsóknarmennirnir einfaldir í hugsun að því er Emil segir. "Reyndum að bæta lit í grálúðuna áður en hún var reykt. Græni liturinn þótti slæmur og minna fremur á skemmdan mat en góðan. Var horfið frá frekari tilraunum á þá vegu.

Þá snérum við okkur að harðfiskbitum. Þar var reynt að súkkulaðihúða harðfiskbita með Síríus suðusúkkulaði. Var það mál þeirra er smökkuðu að einkar illa hefði verið farið með góðan fisk og gott súkkulaði. Tilraunum lauk þar með.Semsagt rétt um þrjátíu og fimm ár frá því horfið var frá því að súkkulaði húða harðfisk."

Ég þakka Emil fyrir þessar mikilvægu upplýsingar sem eru verðugt framlag til safns um matvælasögu Íslands.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband