Súkkulaði sælu vekur - grein úr Morgunblaðinu 31. ágúst 2008

Súkkulaði er vinsælt um allan heim. Flestir líta á það sem sætindi og ímynda sér að svo hafi ætíð verið. Margir vilja nú hverfa aftur til fyrri tíma þegar sykur þekktist ekki og súkkulaðið var beiskt á bragðið, svo beiskt að menn krydduðu það á ýmsa vegu til þess að bragðbæta það. Þá er einnig horfið til fyrri framleiðsluhátta og kakóbaunirnar jafnvel ekki hreinsaðar jafnrækilega og í hefðbundnum súkkulaðiverksmiðjum.

Súkkulaði er notað við ýmis tækifæri. Menn gefa það vinum sínum og unnustum, þess er neytt við hátíðleg tækifæri og tækni nútímans hefur séð til þess að kynstrin öll af alls konar súkkulaði eru nú til reiðu hverjum sem er og hafa vill.

Þá er súkkulaði notað til þess að skreyta ýmis matvæli og gefa þeim sérstakan keim. Má nefna ávexti, brauð, kjöt og ýmiss konar sósur og álegg úr súkkulaði. Þó hefur enn ekki heyrst talað um súkkulaðihúðaðan fisk.

Beiskur töfradrykkur

Eftir því sem næst verður komist er kakótréð upprunnið í regnskógum Amazon-svæðisins. Fornþjóðir Mið-Ameríku brugguðu beiskan drykk úr baunum þess þegar á öðru árþúsundi f. Kr. og neyttu hans við ýmis tækifæri. Súkkulaðið var mikilvægur hluti trúar þeirra og menningar.

Mayarnir hinir fornu ræktuðu kakótré ekki síðar en á 6. öld en úr fræbelgjum þeirra koma hinar margrómuðu kakóbaunir. Þeir söfnuðu baununum, verkuðu þær, ristuðu þær og möluðu. Úr duftinu var búið til deig sem var blandað saman við vatn og maísmjöl. Drykkurinn var svo kryddaður með chile-pipar og ýmiss konar kryddi. Úr þessu varð afar bragðmikill og freyðandi drykkur sem var borinn fram kaldur.

Mayarnir kölluðu kakótréð cacahuaquchtl. Orðið súkkulaði er dregið af xocoatl sem er einnig úr máli Mayanna og merkir „beiskur vökvi“.

Kakóbaunir sem gjaldmiðill

Aztekar, sem réðu miklum hluta Mið-Ameríku um skeið, lærðu að nýta sér kakó. Þegar um 1200 kröfðu þeir undirokaðar þjóðir um skatta sem greiddir voru í kakóbaunum, en þær voru helsti gjaldmiðillinn þeirra á meðal.

Hjá mayum hinum fornu neytti almenningur sjaldan súkkulaðis, en það var einkum drykkur æðstu höfðingja og embættismanna. Á meðal azteka drukku það einkum konungar, prestar, hátt settir herforingjar og mikils metnir kaupmenn.

Þeir trúðu því að súkkulaði færði mönnum hreysti, heilbrigði, visku og aukna kynhvöt. Montezuma, síðasti konungur azteka, neytti rauðleits súkkulaðis úr gullstaupum sem var fleygt eftir að hafa verið notuð í eitt skipti. Hann hafði svo mikla trú á mætti þess að hann drakk iðulega 50 staup á dag af þessum beiska drykk.

Prestar maya og azteka notuðu kakóbaunir sem fórn handa guðum sínum og báru fram kalda súkkulaðidrykki á meðan á fórnarathöfnum stóð.

Þegar Columbus kom úr fyrsta leiðangri sínum til Ameríku hafði hann með sér kakóbaunir. Menn gerðu sér þá ekki grein fyrir verðmæti þeirra. Sögur herma að hann hafi kynnst kakóbaunum sem gjaldmiðli og neytt súkkulaðis þegar hann kom til Níkaragúa árið 1502, en ekki gert sér grein fyrir verðmæti þess.

Spánverjar rækta gjaldmiðil

Árið 1521 sigraði Hernán Cortés, spænskur herforingi, síðasta konung azteka, Montezuma og herlið hans, en Spánverjar höfðu komið til Mexíkó tveimur árum áður og náð hluta landsins undir sig. Spánverjarnir kröfðust þess að höfðingjar azteka afhentu öll auðæfi sín ella væri þeim búinn bráður bani. Þeir létu af hendi gull sitt og gersemar, en umfram allt kakóbaunir sem voru eins og áður sagði einn helsti gjaldmiðill þeirra.

Cortés hafði þegar orðið hrifinn af kakóbaununum og hugsaði sér gott til glóðarinnar að geta ræktað eyri sem væri jafnvirði spænsku doblúnunnar (gullmyntar). Stofnaði hann ekrur í þessu skyni í nafni spænsku krúnunnar og varð það upphafið að ábatasömum viðskiptum.

Árið 1528 flutti Cortés með sér fyrsta súkkulaðifarminn til Evrópu og kynnti þennan eðaldrykk við hirðina. Náði hann skjótum vinsældum. Sagt er að honum hafi fyrstum manna dottið í hug að bragðbæta drykkinn með sykri og fljótlega tóku Spánverjar að laga súkkulaðidrykki sem bragðbættir voru með sykri, múskati, vanillu, smára, kanil og allrahanda kryddi. Súkkulaðið þótti tælandi nautnadrykkur sem varð gríðarlega vinsæll meðal spænska aðalsins. Eftirspurnin eftir baunum jókst.

Á næstu áratugum barst þekkingin á gerð súkkulaðidrykkja út fyrir spænsku hirðina.

Súkkulaði sem sælgæti

Smám saman barst súkkulaði um Evrópu. Þess var enn aðallega neytt af aðlinum og fylgdi jafnvel sem heimanmundur þegar konungleg brúðkaup voru skipulögð. Á 17. öld tók að bera á sælgætisgerð úr súkkulaði og þróaðist hún ört.

Kaþólska kirkjan hafði lagt blessun sína yfir súkkulaðidrykkju þegar árið 1569, en hún taldi að heimilt væri að drekka súkkulaði á föstudögum. Árið 1662 var þó birtur páfaúrskurður þess efnis að ekki sæmdi að borða sælgæti úr súkkulaði á föstunni. Hafa einhverjir látið sér detta í hug að þaðan sé runninn sá siður að búa til súkkulaðiegg sem neytt er um páskana.

Víðast hvar voru háir tollar lagðir á kakóbaunir sem ollu því að súkkulaði var einungis á færi aðalsins og auðugra borgara. Ýmiss konar súkkulaðidrykkir voru vinsælir við hirðir konunga í Evrópu. Þekkt er að Loðvík XIV., konungur Frakka sem ríkti á árunum 1643-1715, naut ásta með eiginkonu sinni eigi sjaldnar en tvisvar á dag síðasta árið sem hann lifði. Þakkaði hann kynorku sína m.a. súkkulaðidrykkju sinni.

Súkkulaði handa almenningi

Miklar framfarir urðu í framleiðslu súkkulaðis á 18. og 19. öld. Má nefna að árið 1730 var smíðuð gufuvél sem malaði baunirnar og árið 1828 var súkkulaðipressan fundin upp. Við það jukust gæði súkkulaðisins og drykkurinn þótti verða mun mýkri en áður.

Um þetta leyti voru fyrstu súkkulaðiverksmiðjurnar stofnaðar í Evrópu og Bandaríkjunum og það hefur verið undirstaða margháttaðs iðnaðar síðan.

Ný tækni, sem fundin var upp í Sviss á 8. áratug 19. aldar, varð til þess að áferð súkkulaðisins gerbreyttist og það varð mýkra. Um aldamótin 1900 höfðu Svisslendingar náð forystu í súkkulaðiiðnaðinum og hafa haldið henni síðan.

Í hnotskurn

» 1492 Columbus siglir til Ameríku.

»1513 Spænskur leiðangursmaður kaupir þræl fyrir 100 kakóbaunir.

» 1528 Súkkulaðið berst til Spánar.

»1670 Kakóbaunir eru fluttar til Filippseyja og ræktun hefst.

» Veitingahús í Lundúnum fara að selja súkkulaðikökur og snúða að spænskri fyrirmynd.

» 1853 Ofurtollar á súkkulaði felldir niður í Bretlandi.

» 1875 Mjólkursúkkulaði kemur á markað í Sviss eftir 8 ára tilraunir.

» 1913 Svisslendingar framleiða fyllt súkkulaði.

» 1923 CMA, samtök amerískra súkkulaðiframleiðenda, stofnuð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll.

Þá veit ég það.

Góðar stundir.

Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 31.8.2008 kl. 13:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband