Við höfðum lokið landsprófi þá um vorið og vorum af einhverjum ástæðum ákveðnir í að stunda nám við MR. Faðir okkar, Helgi Benediktsson, hafði samband við Einar Magnússon, rektor, og tókst með þeim góð vinátta, svo góð reyndar að Einar hringdi til hans eitt sinn heitvondur vegna þess að ungur piltur frá Vestmannaeyjum hafði skrifað honum og tjáð honum að hann gæti því miður ekki hafið nám við MR sökum fátæktar. Sagðist pabbi undrast þetta mjög, þegar hann heyrði hver pilturinn var, því að hann vissi ekki betur en hann hefði skráð sig í annan skóla. Varð Einar þá æfur og sagðist hafa farið í menntamálaráðuneytið og farið mikinn yfir því að ekki skyldu vera til úrræði til að styrkja fátæka námsmenn utan af landi.
Einar Magnússon velti því fyrir sér hvort hag okkar væri e.t.v. betur borgið í Menntaskólanum v. Hamrahlíð og bauðst til að hafa samband við Guðmund Arnlaugsson, rektor. En úr varð að við völdum MR og sátum þar við okkar keip.
Einar var rektor fyrri tvö ár okkar í skólanum en síðan tók Guðni Guðmundsson við. Var samband okkar við þá rektorana jafnan gott og Einar reyndist okkur sannast sagna hinn mesti haukur í horni.
Það olli okkur talsverðum vandræðum að kennarar áttu erfitt með að ákveða þá námsskrá sem farið skyldi eftir um veturinn. Var þetta mjög bagalegt því að skrifa þurfti það allt á blindraletur eða lesa inn á segulband. Þá var einungis einn blindrakennari starfandi hér á landi, Einar Halldórsson. Tók hann að sér að skrifa það sem skrifa þurfti af sérhæfðu námsefni, en ég sá um það sem vinna mátti af segulböndum. Þegar skólinn hófst um haustið kom í ljós að við einar höfðum unnið sumt fyrir gýg og má nærri geta hver óþægindi það hafði í för með sér. En gott fólk brást við og las sumt af því inn á segulband. Mér er enn minnisstæður fundur í Framtíðinni, málfundafélagi MR, þar sem þessi mál bar á góma. Kom til snarpra orðaskipta milli okkar tvíburanna og nemenda annars vegar og einhverra kennara hins vegar sem hreinlega skildu ekki um hvað málið snerist. En upp úr því færðust hlutir heldur til betri vegar.
Við bræður urðum fyrir miklu áfalli í nóvember þá um haustið þegar Einar Halldórsson lést. Enn brást gott fólk við og kom okkur til aðstoðar. Kristín Jónsdóttir, eiginkona Björns Sigfússonar, háskólabókavarðar, hafði skrifað námsefni handa blindu fólki 20 árum áður og rifjaði nú upp kunnáttu sína. Skrifaði hún þá þýsku sem við þurftum á að halda á meðan á menntaskólanámi stóð.
sumarið 1969 var keypt hingað til lands IBM-rafmagnsritvél með blindraletursstöfum í stað venjulegra bókastafa. Var henni breytt fyrir íslenskt blindraletur. Tók Helga Eysteinsdóttir, núverandi formaður Blindravinafélags Íslands, að sér að skrifa námsefni með vélinni. Tókst það ótrúlega vel. Skrifaði hún eftir það mestallt efni sem við þurftum: frönsku, latínu, ensku að mestu leyti, stærðfræði o.s.frv. Var Helga ótrúlega afkastamikil enda skrifa menn mun hraðar með rafmagnsritvél en gamaldags blindraletursritvél sem hafði lítið breyst frá því á 4. áratugnum. Kristín hélt áfram að skrifa þýskuna og Jolee Crane ensku. Rétt er að geta þess að Björn Sigfússon, eiginmaður hennar, las einnig gríðarlega mikið fyrir okkur auk systur okkar og mágs.
Þetta var í fyrsta sinn sem blindir eða verulega sjónskertir nemendur hófu nám á menntaskólastigi hér á landi. Kennarar við MR brugðust afar vel við og vildu í raun allt fyrir okkur gera. Held ég, þegar horft er aftur til þessara ára, að við höfum í raun þegið miklu minni aðstoð en ástæða var til.
Allt blessaðist þetta og við lukum stúdentsprófi fjórum árum síðar ásamt jafnöldrum okkar.
Óþarflega oft heyrði ég okkur bræðrum hrósað á þessum tímum fyrir eitthvað sem okkur þótti óþarft og einatt ollu viðhorf og aðdáun okkur óþægindum. Það gladdi mig því mjög þegar gamall heimilisvinur, Oddtsteinn Friðriksson, sagðist oft hafa heyrt fólk dást að því hvernig ég færi að. En segðu mér eitt, Arnþór minn. Er þetta nokkuð erfiðara hjá þér en öðrum?
Svaraði ég því til að hann hefði svo sannarlega hitt naglann á höfuðið.
Á þessum 40 árum sem liðin eru hefur heimurinn tekið stakkaskiptum. Tölvur eru komnar til sögunnar sem leysa margan vanda en þó ekki allan. Blindrabókasafn Íslands er orðin öflug Námsgagnastofnun og allur stuðningur meiri en áður.
Viðhorfin hafa einnig breyst. Þó finnst mér ríkja ótrúlega mikil vanþekking á raunverulegri getu blindra. Vanþekkingin veldur og því að fötlun fólks er aukin með ýmsum aðgerðum sem framdar eru í hugsunarleysi og valda því að hindranir eru lagðar í götu þeirra sem eru fatlaðir. Skortir mjög á að á þeim málum sé tekið í íslenskri löggjöf.
Ég lít til þessara ára í MR með mikilli ánægju og þakklæti fyrir samskipti við skólafélaga og kennara.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Bloggar, Menntun og skóli | 27.9.2008 | 17:26 | Facebook
Tónlistarspilari
Tenglar
Fonix.blog.is
Helena Björnsdóttir þjálfuð til þess að nýta sér blindrahund
Bloggvinir
- alla
- axelthor
- arnibirgisson
- ormurormur
- astafeb
- bjarnihardar
- gattin
- dora61
- saxi
- jaherna
- jovinsson
- fjarki
- gislisigurdur
- gudni-is
- gelin
- gummigisla
- heidistrand
- helgigunnars
- hildurhelgas
- himmalingur
- hoskibui
- isleifur
- jakobk
- fun
- jonhalldor
- jon-o-vilhjalmsson
- nonniblogg
- juliusvalsson
- kje
- kristbjorggisla
- methusalem
- mortenl
- moguleikhusid
- skari60
- rafng
- ragnar73
- fullvalda
- duddi9
- siggisig
- saemi7
- vefritid
- thorirj
Des. 2024 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | 5 | 6 | 7 |
8 | 9 | 10 | 11 | 12 | 13 | 14 |
15 | 16 | 17 | 18 | 19 | 20 | 21 |
22 | 23 | 24 | 25 | 26 | 27 | 28 |
29 | 30 | 31 |
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Evrópumál
- Ferðalög
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kínversk málefni og menning
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (3.12.): 1
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 12
- Frá upphafi: 319718
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 12
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.