Rannsóknir á starfsemi heilans

Nú er að hefjast í BBC þriggja þátta röð um rannsóknir á starfsemi heilans. Viðmælendur virðast sammála um að áratugir líði þar til menn hafi skilið til fulls ýmsa eiginleika sem heilinn, þetta hlaupkennda líffæri, býr yfir.

Í gær var fjallað um ýmsa kvilla sem þjáð geta fólk vegna brenglunar á starfsemi heilans. Stundum er um meðfædda galla að ræða en oftar stafar brenglunin af skaða eða áfalli sem heilinn hefur orðið fyrir.

Sumt af því sem nefnt var, virtist við fyrstu heyrn hlálegt en við nánari hugsun var það grafalvarlegt. Nefnd skulu dæmi:

Maður nokkur fékk heilablóðfall. Hann fylltist eftir það sérstakri ástríðu sem fólst í því að mála ketti. Nú er húsið hans alþakið málverkum í hólf og gólf og hann viðurkennir að um einkennilega sérvisku sé að ræða. Hann hefur heldur ekkert tímaskyn. 10 mínútur og 12 klukkustundir virðast jafnlangur tími.

Kona ein, ung að árum, þekkir ekki andlit fólks. Hún getur lært að kannast við þá sem hún umgengst mest, en vinnufélaga sína og ýmsa ættingja þekkir hún ekki í sjón.

Ein heilabilunin felst í því að menn ráða ekki gerðum annarrar handar sinnar. Jafnvel fremur höndin ýmis óhæfuverk. Þegar eigandi handarinnar áttar sig á því hvað er á seiði grípur hann einatt til örþrifaráða og reynir að hindra höndina í því að fremja óhæfina. Kemur þá iðulega til átaka milli handa mannsins og fylgir því iðulega hávært rifrildi hans við höndina sem svarar auðvitað engu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband