ÖBÍ varar við hugmyndum Péturs Blöndal

Aðalfundur Öryrkjabandalags Íslands, sem haldinn var í fyrradag, samþykkti ályktun þar sem varað er við að tekið verði upp nýtt örorkumatskerfi um næstu áramót. Þótt ályktunin sé varlega orðuð skín í gegn gagnrýni á þær hugmyndir sem Pétri Blöndal, alþningismanni, hefur tekist að smita út frá sér innan stjórnkerfisins, verkalýðshreyfingarinnar og víðar. Er full ástæða til að stjórnvöld hlusti betur á bandalagið og varnaðarorð þess.

Ályktunin fer hér á eftir.

Ályktun aðalfundar ÖBÍ 4. október 2008

Slæmt efnahagsástand þjóðarinnar hefur haft alvarlegar fjárhagslegar afleiðingar fyrir fjölda öryrkja, sjúklinga og ellilífeyrisþega. Sú staðreynd að einstaklingar hafi 130.000 kr. á mánuði eftir skatta og hjónafólk 116.000 kr. hvort eftir skatta til framfærslu er engan veginn ásættanlegt. Aðalfundur ÖBÍ skorar á stjórnvöld að grípa til aðgerða með markvissum hætti og hækka bætur almannatrygginga til að fólk geti lifað mannsæmandi lífi.

Ríkisstjórn Íslands stefnir á að taka upp nýtt örorkumatskerfi um næstu áramót. Að mati ÖBÍ er það óraunhæft og hvetur bandalagið stjórnvöld til að endurskoða fyrri ákvörðun sína í ljósi þess hversu vinnan er skammt á veg komin. Svo umfangsmikil kerfisbreyting krefst lengri undirbúnings þannig að almenn sátt ríki um hana.

ÖBÍ fagnar nefndarvinnu til einföldunar almannatryggingakerfisins sem nú er í fullum gangi og gert er ráð fyrir að ljúki 1. nóvember nk. ÖBÍ trúir því og treystir að nefndin komi fram með tillögur sem einfalda kerfið, geri það sanngjarnara og bæti hag öryrkja og sjúklinga til muna. Draga þarf verulega úr tekjuskerðingum. Víxlverkunum sem eru á milli almannatrygginga og lífeyrissjóðakerfisins á skerðingu lífeyrisgreiðslna til öryrkja verður að linna.

ÖBÍ fagnar nýjum hugmyndum nefndar sem unnið hefur að breytingum á greiðsluþátttöku almennings í heilbrigðiskerfinu sem gengur út frá að landsmenn borgi aldrei meira en ákveðna upphæð á ári fyrir lyf og heilbrigðisþjónustu og kerfið verði einfaldað til muna. ÖBÍ leggur þó mikla áherslu á að þeir öryrkjar og ellilífeyrisþegar sem minnsta framfærslu hafa borgi lægra gjald en aðrir. Koma þarf sérstaklega til móts við þennan hóp í almannatryggingakerfinu.

Að lokum vill ÖBÍ minna á einkunnarorð bandalagsins „Ekkert um okkur án okkar.“


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband