Útþennsla Nató og saklausir Rússar

Í gærmorgun var útvarpað á BBC World Service skemmtilegu og jafnframt fróðlegu viðtali við sendiherra Rússa hjá Nató í Brussel. Var hann kynntur til sögunar sem hálfgerður vandræðagemlingur sem sparaði ekki stóryrtar yfirlýsingar þegar þannig bæri við.

Sendiherrann sagðist ekki vera neinn vandræðagemlingur. Hann væri ágætlega vel menntaður heimspekingur og gengi hreint til verks. Vestrænir diplómatar hefðu kallað sig vandræðagemling vegna þess að hann notað ekki ævinlega orðfæri sem fælist í því að fela það sem hann meinti. Hann sagði að nútíma samskipti opinberra fulltrúa fælust í því að segja það sem þyrfti að segja í stað þess að fara eins og köttur kringum heitan graut.

Spyrjandinn gekk hreint til verks og spurði um ýmislegt sem hann hafði látið frá sér fara. Viðurkenndi sendiherrann um leið og hann hló kæruleysislega að hann hefði stundum látið hitt og þetta flakka, sennilega vegna þess að hann hefði drukkið óþarflega mikið viskí og þá yrði sér liðugra um málbeinið.

Spyrjandinn neri honum því um nasir að Rússar beittu orkunni sem vopni til þess að ná fram markmiðum sínum. Neitaði hann því alfarið og sagði Rússa aldrei hafa þvingað Vesturlönd til eins eða neins.

Þegar rætt var um fall Sovétríkjanna og það sem tók við sagði sendiherrann að sitthvað í Sovétríkjunum hefði ekki verið til fyrirmyndar. Þau hefðu verið misheppnað hugsjónaríki en Rússland byggðist á lýðræðislegum viðmiðum. Sagði hann að Bandaríkin hefðu tekið við af Sovétríkjunum sem hugsjónaríki, en meginhugsjón Bandaríkjanna væri að ráða sem mestu í heiminum. Taldi hann þá stefnu dæmda til að mistakast.

Sendiherrann rakti síðan þróun mála. Hélt hann því fram að þegar Sovétríkin voru að liðast í sundur hefði Nató fullvissað ráðamenn um að Rússar fengju aðstoð til að byggja upp innviði stjórnkerfisins og að ekki yrði vopnabúnaður færður nær landamærum ríkisins. Hann sagði að Vesturlönd hefðu svikið þetta gersamlega. Aðstoðin hefði verið minni en engin og Nató hefði sífellt sótt í sig veðrið og færst nær og nær sovésku landamærunum. Minntist hann m.a. á ásókn Nató í gömlu aðildarríkin önnur en Rússland. Varpaði hann fram þeirri spurningu hvers vegna Rússum hefði ekki verið boðin aðild að Nató. Fullyrti hann að ástæðan væri sú að bandalagið vildi viðhalda togstreitu í alþjóðamálum enda þrifist það á ásókn eftir völdum.

Samtal þetta verður ekki rakið frekar en lesendum er eindregið bent á að fara inn á www.bbcworldservice.com og leita að The Interview. Hala má þessu viðtali á tölvur og hlusta á það.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hér eru slóðir í þann Rússneska hjá BBC. Trúlega má breyta þessu í krækjur

Media Player:

http://www.bbc.co.uk/mediaselector/check/worldservice/meta/tx/interview?nbram=1&nbwm=1&size=au&lang=en-ws&bgc=003399&ls=p1571

Hlaðvarp:

http://downloads.bbc.co.uk/podcasts/worldservice/interview/interview_20081010-2332a.mp3

Emil (IP-tala skráð) 12.10.2008 kl. 16:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband