Apinn sem keypti alla peningana og líka grænmeti og aura

Birgir Þór Árnason og Krista Sól Guðjónsdóttir eru á fjórða ári og stunda nám í leikskólanum Tjarnarási í Hafnarfirði. Í dag segja þau hlustendum þáttarins Vítt og breitt á Rás eitt söguna um apa sem féll ofan úr tré og litla mús sem renndi sér niður rennibrautina. Útsendingin hefst um kl. 13:45. Þá heyrist einnig söngur barnanna á Tjarnarási og leikhljóð. Missið ekki af þessari útsendingu. Hún hressir sálina í darraðardansi og amstri dagsins.

Ég hef borið gæfu til að halda úti pistlum í þættinum Vítt og breitt einu sinni í viku frá árinu 2006. Þar hefur ýmislegt borið á góma. Í vetur verða pistlar og frásagnir um hitt og þetta og nokkur áhersla lögð á að birta hljóðrit sem ég hef gert undanfarna þrjá áratugi. Þótt hljóðritasafnið sé ekki mjög stórt í sniðum leynist þó þar ýmislegt sem er harla athyglisvert og ber vitni um horfinn hljóðheim.

Um daginn afritaði ég gamla snældu á tölvudisk. Þegar afrituninni var lokið tók ég eftir því að snældan var slitin. Hún verður því ekki notuð framar.

Þeir sem eiga gamlar snældur með efni sem þeir telja dýrmætt ættu hið fyrsta að huga að afritun þeirra. Leynist þar efni sem fólk telur að aðrir geti haft gaman af, væri fróðlegt að fá að hlusta á það og athuga hvort það væri ekki hæft til útsendingar.

Munið svo að hljóðrita börnin ykkar. Til þeirra hluta eru nú til býsnagóð tæki á mörgum heimilum, en yfirleitt eru góðir hljóðnemar á stafrænum kvikmyndavélum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband