Sök bítur sekan

Þegar harðnar á dalnum í þjóðarbúskapnum bitnar það óneitanlega á fjölmiðlum sem byggja tekjur sínar á auglýsingum, þar á meðal Ríkisútvarpinu. Að vísu hefur mér fundist sem íslensk fyrirtæki auglýsi nú sem aldrei fyrr a.m.k. í ljósvakamiðlunum.

Nú er hafinn sami gamli söngurinn um að ýta þurfi Ríkisútvarpinu af markaðinum af því að einkareknu fjölmiðlarnir séu í vandræðum. Ég fullyrði að verði niðurstaðan sú að koma í veg fyrir að auglýsingar verði birtar í Ríkisútvarpinu skerðist mjög hagur auglýsenda og almennings því að langflestir hlusta enn á Ríkisútvarpið. Þetta væri því hefndarráðstöfun.

Það er eins og þau Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Sjálfstæðisflokkurinn hafi aldrei getað gert upp við sig hvort eigi að drepa Ríkisútvarpið eða lofa því að lifa. Í öllum málflutningi Þorgerðar hefur verið einhver tvískinnungur. Í ljósi þess að fjölmiðlar geti lent í höndum eins manns aðrir en Ríkisútvarpið þarf að styrkja stöðu þess segir hún. Um leið segir hún að Ríkisútvarpið þurfi óhjákvæmilega að draga saman seglin og full ástæða sé að skoða stöðu þess á auglýsingamarkaðinum.

Þegar Ríkisútvarpinu var breytt í opinbert hlutafélag var fullyrt að það væri gert m.a. til þess að styrkja stöðu þess og gera því kleift að taka þátt í samkeppni á eðlilegan hátt. Fullyrða má að ríkisútvarpið hafi að sumu leyti misnotað yfirburðastöðu sína með því t.d. að bjóða í fokdýra íþróttaatburði og ryðja öðru dagskrárefni til hliðar. Aldrei hef ég fengið að vita hvort stofnunin hagnaðist á því. En þetta er líka hið eina ef undan er skilinn sá orðrómur að boðið hafi verið í dagskrárgerðarmenn.

Nú þarf að styrkja Ríkisútvarpið. Sjá þarf til þess að það geti sinnt þeirri skyldu að búa til vandað efni handa hlustendum sínum. Sé litið á útvarpsstöðvar víða um heim kemur í ljós að langflestar einkareknar útvarps- og sjónvarpsstöðvar sinna lítt hinum menningarlega þætti. Dægurmenningin á hug þeirra allra enda er flutningur gæðaefnis sjaldan talinn borga sig. Þær einkareknu stöðvar sem sinna sígildri tónlist fara meira að segja eftir tilteknum vinsældalista. Þetta á m.a. við um fjölmenn lönd eins og Bretland, Bandaríkin, Þýskaland og Norðurlöndin.

Hér á landi hefur margsannast að fámenni þjóðarinnar leyfir afar takmarkaðan fjölda útvarps- og sjónvarpsstöðva sem geta staðið undir því nafni að kallast menningarveitur. Má m.a. minnast harmsögu Talstöðvarinnar. Hvað stóð sú tilraun lengi?

Innan Sjálfstæðisflokksins eru öfl sem aðhyllast óhefta einkavæðingu. Þau eru ekki þögnuð þrátt fyrir skipbrot frjálshyggjunnar. Forysta flokksins hefur á stundum verið höll undir þessi öfl og hrakist undan þeim. Ekki má þrengja um of að einkaframtakinu með regluverki. Alls ekki má setja reglur um aðgengi allra að vefnum, það á fyst og fremst að spretta af velvilja þeirra sem eiga peningana og ráða. Ekki mátti líta eftir bönkunum. Þeir áttu að fá að ráða og um stundarsakir áttu þeir jafnvel að ráða framtíð íslenskrar tungu. Fleiri dæmi mætti nefna um andúð Sjálfstæðisflokksins á lögum og reglum sem teljast eðlileg í öllum nágrannalöndum okkar.

Sjálfstæðisflokkurinn og Þorgerður Katrín þurfa að fara að tala skýrt og skorinort um þær hugmyndir sem þau hafa um fjölmiðlana og þar á meðal Ríkisútvarpið. Hálfkveðnar vísur og vingulsháttur valda meiri skaða en svo að boðlegt sé almenningi og skattgreiðendum þessa lands.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband