Siðblinda - www.afsogn.is

Greinilegt er að skrif mín um skrýlslætin á Alþingi í gær hafa farið fyrir brjóstið á ýmsum og er það að vonum. Sjálfan hefur mig stundum langað til að ganga um með hlaupstýfða haglabyssu og beita henni gegn bílstjórum sem leggja upp á gangstéttar, fólki sem notar ekki skóhillur í búningsklefum, húseigendum sem nota gangstéttar fyrir trjágróður sinn, þingmönnum sem eru mér ósammála og hinu og öðru sem gerir mér gramt í geði og skaðar samborgara mína. En ég hef ekki látið það eftir mér því að mér hefur þótt líklegra að aðrar aðferðir skili meiri árangri.

Ég skil reiði fólks og vil gjarnan leggja þeim lið með einhverjum hætti sem vilja koma mótmælum sínum á framfæri.

Ég hef til dæmis velt fyrir mér hvers vegna enginn setji upp netsíðu þar sem skorað er á ráðherra fjármála og viðskipta að segja af sér. Það eitt út af fyrir sig væri talsverður árangur og í raun fyrsta skrefið í því uppgjöri sem verður að eiga sér stað hér á landi.

Þeir sem létu illa á Alþingi í gær og létu hendur skipta eru haldnir ákveðinni siðblindu engu síður en ráðamenn þessa lands. Það var t.d. ömurlegt í gær að sitja í Háskólabíói og hlusta á tvo hálaunamenn verkalýðshreyfingarinnar sem hafði hvorugum dottið í hug að lækka laun sín vegna þeirra erfiðu tíma sem nú ríða yfir. Annar þeirra hreykti sér af því að hafa lagt til að forystumenn tækju sér ekki hærri laun en fimmföld meðallaun hjá VR, sem eru 400.000 kr á mánuði. Þá var ekki síður dapurlegt að hlusta á viðskiptaráðherra sem algerlega fyrirmunað að skilja hugtakið ábyrgð.

Síðasta dæmið um siðblindu er síðan neitun skilanefnda bankanna um að neita skattrannsóknastjóra um gögn sem tengjast dótturfyrirtækjum á erlendri grundu. Greinilegt er að bíða á eftir lögum sem þvinga þær til þess.

Ég endurtek það sem sagt hefur verið á þessari síðu að nokkrir einstaklingar í opinberri þjónustu eiga tafarlaust að segja af sér. Þeir skulu nefndir hér í stafrófsröð:

Árni Mathiesen. Hann stóð ekki vaktina og lét fljóta sofandi að feigðarósi.

Baldur Guðlaugsson. Hann nýtti sér upplýsingar sem fram komu á fundi í Lundúnum og seldi hlutabréf sem hann átti. En sú tilviljun!

Björgvin Sigurðsson. Hann stóð ekki vaktina og lét fljóta sofandi að feigðarósi.

Davíð Oddsson. Ávirðingar hans eru margar: ósannindi í erlendum fjölmiðli, dylgjur á opinberum fundum, upplýsingaleynd í skjóli bankaleyndar auk þess sem hann stóð ekki vaktina og tók þátt í því að fleyta Íslandi að feigðarósi.

Stofni nú einhver netsíðuna www.afsogn.is og ekki skal standa á mér að senda mönnum áskorun um afsögn.

Ég hélt að Samfylkingin myndi reyna að siðvæða íslensk stjórnmál en forysta hennar er jafnsiðblind forystu Sjálfstæðisflokksins.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gúrúinn

Hvorki bein né óbein mótmæli hafa áhrif. Það hrífur ekkert á þessa andskota!

Gúrúinn, 10.12.2008 kl. 09:03

2 Smámynd: Neddi

Það er spurning hvort að það sé hægt að hafa svona síðu þannig að menn geti farið og skráð sig á hana, skrifað smá skilaboð og svo sendir hún sjálfkrafa póst á alla þá sem að menn vilji að segi af sér. Þá væri hægt að velja hverja menn vilja senda á.

Ég er ekki nógu góður í vefsíðugerð, þó svo að ég hafi sett upp nokkrar, til að framkvæma þetta en vafalaust er einhver þarna úti sem getur það.

Neddi, 10.12.2008 kl. 11:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband