Einelti er samfélagsböl

Í Morgunblaðinu í dag er merkilegt viðtal við unga stúlku sem hefur að undanförnu bloggað um reynslu sína af áralöngu einelti. Lýsir hún þar vanlíðan sinni og hræðslu við þá sem að eineltinu stóðu.

Ég hef ekki lesið blogg Hólmfríðar, en vafalítið kemur þar fram greining á orsökum eineltis. fyrir mörgum áratugum var þetta hugtak lítt þekkt á Íslandi, en þó var fyrirbærið þekkt. Þeir, sem ekki fóru alafaleiðir eða voru ekki í ríkjandi stjórnmálaflokki voru iðulega lagðir í eineltir. Þá hétu þetta gjarnan ofsóknir. Svo rammt kvað að þessu að fjölskyldur hrökkluðust jafnvel úr byggðarlaginu.

Ég hitti einu sinni unga konu frá Vestmannaeyjum á förnum vegi. Hún sagði mér hverra manna hún væri. Ég kannaðist undir eins við föður hennar. Stúlkan tók mig þá á eintal og þakkaði mér fyrir að hún skyldi ekki hafa þurft að rifja upp það einelti sem fjölskyldan hafði orðið vegna veikinda mannsins og þess uppnefnis sem því fylgdi.

Ég hef vikið að svipuðum málum áður á þessu bloggi, m.a. vegna ágætrar greinar sem Gísli Pálsson, mannfræðingur, ritaði í Morgunblaðið síðastliðið haust. Í viðtalinu við ungu stúlkuna í dag kemur í ljós að skólayfirvöld töldu hana þurfa að breyta sjálfri sér.

Fjölmargir hafa þessa sömu sögu að segja. Ýmsir þeirra hafa lagt sig í líma við að breyta sjálfum sér en það er eins og fátt breytist. Hópurinn hefur sett á þá óafmáanlegan stimpil. Fólk hrekst úr skóla, flytur úr byggðarlögum eða flýr jafnvel land vegna slíks eineltis.

Einelti er samfélagsböl á Íslandi. Það leggst jafnvel ævilangt á þá sem verða fyrir því og hindrar eðlilegan framgang þeirra, mótar skaphöfn þeirra og þroska. Og nú berast fréttir af einelti barna bankafólks.

Sú kenning Gyðinga að syndir feðranna komi niður á feðrunum er samkvæmt nútíma málskilningi illur boðskapur. Í því ástandi, sem nú ríkir, ríður á að þeim, sem verða fyrir einelti verði hjálpað og skiptir þá engu hverjar ástæðurnar eru.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband