Frumflutningur tveggja íslenskra konserta

Í kvöld hlýddum við hjónin tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands undir stjórn Daníels Bjarnasonar. Flutt voru fjögur íslensk verk.

Fyrst var á dagskránni konsert fyrir klarinett og hljómsveit frá árinu 1998 eftir Jón Ásgeirsson. Einar Jóhannesson lék af sinni alkunnu fágun og snilld. Verkið er afar áheyrilegt og skemmtilegt. Segja má að þessi konsert sé bróðir hornkonsertsins sem fluttur var fyrir u.þ.b. 15 árum og hlaut góða dóma. Eins og í hornkonsertinum var miðkaflinn afar lagrænn og fallegur. Tónmálið á rætur að rekja til Þrymskviðu, en sú ópera Jóns var sýnd í Þjóðleikhúsinu árið 1974. Kvað svo rammt að því að í 3. þætti var bein tilvitnun í 3. þátt óperunnar. Um er að ræða atriði þar sem Þrymur hrósar sér af afrekum sínum. Jón hefur skapað sér sitt eigið tónmál og er því trúr.

Þá var flutt verkið Dialog eftir Hauk Tómasson, áheyrilegt verk. Samræða sú sem háð var í verkinu endaði með ákveðinni yfirlýsingu í lokin sem hver skildi með sínum hætti.

Eftir hlé var hafist handa með verkinu Rímu eftir Þorkel Sigurbjörnsson. Verkið var samið árið 1974 og fitlar tónskáldið þar við alþekkta stemmu sem er m.a. kveðin við "Sólin þaggar þokugrát". Fannst undirrituðum sem tónskáldinu tækist afar vel að ná fram þeim trega sem einkennir mörg þjóðlög vor Íslendinga.

Að Rímu lokinn risu tónleikarnir hæst er frumfluttur var píanókonsert nr 2 eftir Daníel Bjarnason, Processions. Betur hefði farið á að skýra tónverkið á íslensku. Miðað við það sem á gekk ímynda ég mér að um fylkingar hafi verið að ræða. Konsert þessi er afar vel samið verk og beitt er fjölbreytilegum stílhrifum. Andstæður voru miklar og hlýtur verkið að krefjast hins ítrasta af einleikaranum sem var Víkingur Heiðar Ólafsson. Í miðþættinum laumaðist "Ísland farsældar frón" inn í verkið og minnti á uppruna höfundarins. Í lokin sátu áheyrendur sem lamaðir af hrifningu þegar verkið fjaraði út og síðan brutust fagnaðarlætin fram.

Þessir tónleikar voru einstaklega vel heppnaðir, verkin og flutningur þeirra höfundum og flytjendum til mikils sóma. Því skal spáð að píanókonsertinn "fylkingar" eigi eftir að fara sigurför um gervalla heimsbyggðina. Verkið er þannig samið að það kallar fram ýmsar tilfinningar, hrifningu, stolt og gleði

Til hamingju, Daníel.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband