Norðangarrinn

Ég átti erindi út á Eiðistorg áðan. Ég bjó mig vel og hélt út í garrann. Ekki var eins kalt og ég bjóst við og í raun hressandi að fást við náttúruöflin. Gangstéttin hafði verið mokuð en vindurinn sá til þess að mjöllin hafði feykst yfir hana á kafla.

Við aðaldyr Eiðistorgsins var hált og við bættist að einhver sporletingi hafði lagt jeppa sínum kirfilega upp á ganstétt sunnan aðaldyranna. Hefur hann væntanlega þurft að hafa meira fyrir því en að leggja á bílastæðinu og ganga í áttina að dyrunum. Hann slapp hvort eð er ekki við hálkuna.

Mér gekk ágætlega að sinna erindum mínum og hélt síðan heimleiðis. Snjórinn og hálkan ollu því að ég fór fetið. Gætti ég mín ekki sem skyldi og var næstum fallinn um hindranirnar sem settar voru upp fyrir nokkrum árum til þess að hindra að bílum væri lagt þar upp á gangstéttina. Minntist ég þess þegar ég féll eitt sinn á andlitið vegna aðgæsluleysis og vankaðist. Skjögraði ég yfir götuna, rak mig þar á ljósastaur og varð heldur ófrínilegur útlits. Síðar frétti ég að eiginkona lögregluþjóns, sem er frægur að endemum fyrir list sína og tryggð við útlendan vin sinn, hefði um svipað leyti fallið um þessa sömu hindrun og fótbrotnað. En hvað þjóðfélagið gæti nú verið greiðfært ef ekki þyrfti að koma fyrir hvers kyns hindrunum til þess að forða fólki frá að ganga á hlut annarra.

Ekkert bar annars til tíðinda á heimleiðinni annað en að hrafn nokkur sat á ljósastaur á horni Skerjabrautar og nesvegar, krunkaði lágt og sletti í góm. Krunkuðum við dálítið saman og vorum sammála um að vorið væri í nánd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Góður pistill hjá þér Arnþór. Mér finnst þú hetja að fara út að ganga, í fjúgandi hálku, þegar margir sjáandi treysta sér ekki út, vegna ófærðar. Í sambandi við ljósastaurinn sem þú talar um. Menn sem ganga á ljósastaur, eru þeir staurblindir?

Kveðja,

Magga Rósa.

Magga Rósa (IP-tala skráð) 5.3.2009 kl. 09:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband