Í minningu Halldóru Guðmundsdóttur, Dóru í Landlist

Í dag verður mágkona mín, Halldóra Guðmundsdóttir, jarðsungin frá Bústaðakirkju. Hugurinn leita nú liðinna stunda og ýmislegt rifjast upp. Ég birti því í bloggi þessu nokkur minningarorð sem ég birti í Morgunblaðinu í dag. Þakklæti til þessarar mætu konu er mér nú efst í huga og virðing fyrir lífsviðhorfum hennar.

Hún Dóra var kærleiksrík, vildi hvers manns vanda leysa en skirrðist þó aldrei við að taka afstöðu. Þótt hún væri ósátt við hegðan og framgöngu fólks fann hún því iðulega eitthvað til málsbóta. Varð hún þannig mannasættir og mannvinur.

Samskipti okkar byrjuðu víst ekki björgulega. Sjálfsagt hefur hún vitað af mér frá fæðingu enda fóru þau Dóra og Sigtryggur að dansa saman árið sem ég fæddist. Hún vissi að ég var erfitt barn og kallaði víst ekki allt ömmu mína. Einhverju sinni þegar ég var á 4. ári hugðist hún gera móður minni og tengdamóður sinni greiða og taka mig út með sér, en ég frekjaðist þá sem mest ég mátti. Greip hún mig á handlegg sér. Ég var hinn reiðasti og háorgaði. Skipti þá engum togum að ég læsti tönnunum í upphandlegg hennar og beit fast. Hún fór sjálf að hágráta og skilaði mér háorgandi. Mamma þurfti því að hugga okkur bæði.

Þau Dóra og Sigtryggur bjuggu fyrstu árin í lítilli íbúð í kjallaranum heima og var því samgangur mikill. Eftir að þau fluttu til Reykjavíkur varð heimili þeirra eins konar samgöngu- eða áningarmiðstöð fjölskyldunnar frá Landlist og tengdafólks hennar. Þau hjón voru samhent í gestrisni sinni og greiðvikni. Þegar stórfjölskyldan kom saman á gleðistundum upphófst mikill söngur. Einhver var þá fenginn til að leika undir á píanó eða gítar og var stundum sungið linnulítið svo að klukkustundum skipti.

Dóra varð fjölmenntuð kona. Hún hafði unun af lestri skáldsagna, ljóða og margs kyns fræðibóka. Hún ræddi skoðanir sínar á bókmenntum líðandi stundar, greindi persónur þeirra og stílbrögð og braut efnið til mergjar. Hún sótti námskeið á vegum endurmenntunar H.Í. í jafnólíkum greinum sem trúarbragðafræðum og bókmenntum.

Frá því að ég man eftir mér söng hún í einhverjum kór. Í Kirkjukór Vestmannaeyja var hún árum saman, Pólýfónkórnum og nú síðast söng hún með kór fullorðinna heiðurskvenna. Tónlistin var hennar líf og yndi. Þess vegna sótti hún iðulega tónleika og stundaði nám í píanóleik fram á síðustu stundir.

Dóra var trúuð og treysti skapara sínum. Hún tók því sem að höndum bar af æðruleysi þess er treystir guði sínum og leggur allt sitt í hendur hans. Þegar grannt er skoðað var það ef til vill helsti styrkur hennar. Dóra hafði áhuga á öllu sem snerti ættingja sína og vini. Hún átti það til að spyrja unga menn um kvennamál þeirra og forvitnast um þeirra innstu tilfinningar. Flestir svöruðu þeir spurningum hennar og svöluðu um leið löngun sinni til þess að tjá sína innri þrá, enda eignaðist hún marga vini á meðal ungs fólks.

Helgi Benediktsson, tengdafaðir hennar, sagði eitt sinn við mig að Dóra hefði marga kosti til að bera. Fáa eða enga vissi hann reynast þeim betur sem stríddu við veikindi eða önnur bágindi. Ég er ekki viss um að hann hafi sagt henni þetta nokkru sinni en oft minntist hann á þetta að fyrra bragði.

Söknuður ættmenna hennar og vina er mikill. Eftir lifir minningin um atorkusama og glaðværa eiginkonu, umhyggjusama móður, skemmtilega ömmu, systur, mágkonu og vinkonu sem aldrei brást.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband