Ýmis leyndarmál Vestfjarða

Við hjónin höfum að undanförnu notið þess að ferðast um Vestfirði og skoða okkur þar um. Við höfum haft aðsetur í Súðavík og farið þaðan í leiðangra um svæðið. Unnur Alfreðsdóttir, vinkona okkar, var með okkur um skeið.

Í Súðavík er Raggagarður, unaðsreitur, hressingar- og skemmtigarður handa börnum og fullorðnum. Vilborg Arnarsdóttir hefur beitt sér fyrir gerð garðsins og hefur veg og vanda af stjórn garðsins ásamt ýmsum valinkunnum heiðursmönnum. Raggagarður er gott dæmi um það hverju eljusemi og áhugi geta áorkað. Garðurinn er gersemi á Vestfjörðum og í raun þjóðargarður sem vert er að veita athygli.

Þeim, sem hafa áhuga á að kynna sér sögu Raggagarðs, er bent á heimasíðuna www.raggagardur.is

Í Skötufirði hefur verið unnið að því að gera upp gamlan bæ, Litlabæ, sem hlaðinn er að mestu úr flögugrjóti, en algengt var þar um slóðir að bæir væru hlaðnir að mestu úr slíku grjóti. Þessi bær er nú einn eftir sem dæmi um þessa fornu byggingarlist. Ferðamönnum er eindregið ráðlagt að fara að Litlabæ og skoða þessar merku hleðslur.

Greinilegt er að Vestfirðir eru í sókn sem ferðamannasvæði. Þangað er margt að sækja sem fengur er að.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband